Íranir hafa hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að aflétta viðskiptahöftum svo þeir geti betur tekist á við COVID-19.

Viðskiptahöftin, sem Donald Trump fyrrverandi forseti setti á, eru með undantekningum vegna matvöru, lyfja og neyðarbirgða en írönsk stjórnvöld segja höftin torvelda viðskipti við erlenda banka.

Íranir hafa tryggt sér aðgang að rússneska bóluefninu Sputnik V og reyna að ná samningi við AstraZeneca og önnur lyfjafyrirtæki. Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hefur bannað innflutning á bóluefni frá Bandaríkjunum og Bretlandi, sem hann segir óáreiðanleg.

Þá hótuðu Íranir að þeir myndu hindra eftirlitsferðir Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuver landsins, verði höftunum ekki aflétt.