Kjara­við­ræður BSRB við við­semj­endur þokast, að sögn banda­lagsins á­fram í rétt átt, þó hægt hafi gengið. Í til­kynningu frá banda­laginu kemur fram að enn eigi eftir að leysa úr stórum á­greinings­málum eins og um styttingu vinnu­vikunnar og jöfnun launa á milli markaða. Í til­kynningu kemur fram að í sumar hafi náðst sam­komu­lag um endur­nýjaða við­ræðu­á­ætlun, þar sem kom fram að stefnt væri að því að ná kjara­samningum fyrir þann 15. septem­ber. Segir að ljóst sé að það muni ekki nást.

Stytting vinnu­vikunnar stærsta kjara­málið

Stærsta á­herslu­mál BSRB í kjara­við­ræðunum er stytting vinnu­vikunnar. BSRB vill stytta vinnu­vikuna í 35 stundir og enn meira hjá vakta­vinnu­hópum.

„Þær á­herslur eru í sam­ræmi við afar já­kvæðar niður­stöður úr til­rauna­verk­efnum sem banda­lagið stóð að á­samt Reykja­víkur­borg annars vegar og ríkinu hins vegar,“ segir í til­kynningu.

Undirhópur fjallar um styttinguna

Sér­stakur undir­hópur hefur verið stofnaður í kjara­við­ræðunum við ríkið sem hefur fjallað um mögu­lega út­færslu á styttingunni. Á­ætlað er að hópurinn skili niður­stöðum sínum fljót­lega. Samninga­nefndin vonast til þess að hægt verði að ná samningum í kjöl­farið á því.

Í við­ræðunum hafa or­lofs­mál einnig verið mikil til um­ræðu. Þann 1. júní síðast­liðinn tók gildi bann við mis­munun á grund­velli aldurs. Or­lofs­á­vinnsla hefur verið tengd líf­aldri hjá opin­berum starfs­mönnum og því þarf að breyta í þessum kjara­samningum.

Þá hefur BSRB einnig lagt þunga á­herslu á að samið verði um jöfnun launa milli opin­bera vinnu­markaðarins og hins al­menna, enda skýrt kveðið á um jöfnun launa milli markaða í sam­komu­lagi sem gert var í tengslum við breytingu á líf­eyris­réttindum opin­berra starfs­manna árið 2016. Í sam­komu­laginu skuld­bundu ríki og sveitar­fé­lög sig til að leið­rétta launa­muninn innan tíu ára.

Samningar lausir frá því í apríl

Kjara­samningar flestra aðildar­fé­laga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl og við­ræður við við­semj­endur staðið yfir síðan. BSRB fer með samnings­um­boð í á­kveðnum mála­flokkum en aðildar­fé­lög banda­lagsins semja hvert fyrir sig um laun og ýmis sér­mál. Við­semj­endur eru alls þrír, það er ríkið, Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga og Reykja­víkur­borg.

Til­kynningu BSRS er hægt að lesa hér í heild sinni.