Fiskeldi

Bíða með áminningu á meðan Arnarlax sækir um undanþágu

Landeigendur í Arnarfirði hafa margítrekað krafist viðbragða af hálfu Umhverfisstofnunar vegna meintra brota Arnarlax á svæðinu. Þeir segja stofnunina vera meðvirka með fyrirtækinu og að hún sé í raun að aðstoða það við að finna svigrúm til að brjóta reglur.

Landeigendur hafa kvartað til umhverfisráðuneytisins og segja Umhverfisstofnun sýna Arnarlaxi meðvirkni. Fréttablaðið/ Getty

Tveir landeigendur í Arnarfirði hafa ítrekað krafist aðgerða af hálfu Umhverfisstofnunar vegna meintra brota á starfsleyfi Arnarlax á svæðinu. Þeir hafa nú kvartað til umhverfisráðuneytisins vegna þeirrar málsmeðferðar sem brot Arnarlax á starfsleyfi hafa fengið hjá stofnuninni.

Arnarlax tæmdi sjókvíar við Hringsdal í Arnarfirði 7. mars síðastliðinn og hóf útsetningu seiða þar á ný þremur mánuðum síðar, 6. júní. Þetta fer í bága við starfsleyfi fyrirtækisins en í því segir að eldissvæði skuli hvíla milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hvorki virðist deilt um brotin af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax.

Í svörum Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að stofnunin hafi sent fyrirtækinu áform um áminningu vegna þessa atviks þann 16. júlí síðastliðinn. Rekstraraðili hafi sent inn úrbótaáætlun í kjölfarið sem miðaði að því að sótt yrði um undanþágu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um hvíldartíma svæðisins og var hún send inn þann 30. júlí.

Ari Wendel, annar landeigendanna, hefur staðið í stappi við Umhverfisstofnun vegna málsins frá því seiðin voru sett út í vor. Þeir hafa krafist þess að starfsemin verði stöðvuð og seiðin verði flutt burt úr kvíum tafarlaust til að svæðið fái fullan hvíldartíma samkvæmt starfsleyfinu. Ari segir að eitt stærsta æðarvarp á Vestfjörðum sé nokkur hundruð metra frá kvíastæðinu og aukin botnmengun og brot á hvíldartíma geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir æðarfuglinn, fæðu hans og annað lífríki á svæðinu.

„Það sem okkur finnst svo sérkennilegt er að eftirlitsstofnanir skuli ekki bregðast við heldur sýna þeim meðvirkni sem stofnunin á að hafa eftirlit með og vera í rauninni að hjálpa þeim við að finna svigrúm til að brjóta reglurnar og starfsleyfið,“ segir Ari en þeir hafa kvartað undan málsmeðferð stofnunarinnar til Umhverfisráðuneytisins en ekki enn fengið viðbrögð.

Í úrbótaáætlun Arnarlax kemur fram að auk beiðni um undanþágu frá tilskildum hvíldartíma svæðisins hafi fyrirtækið sent Skipulagsstofnun matsskyldufyrirspurn vegna breytinga á starfsleyfi þess efnis að hvíldartími verði að lágmarki 90 dagar. Matsskyldufyrirspurnin sé í vinnslu og reikna megi með að sú vinna taki 3-6 vikur og fyrirtækið muni láta Umhverfisstofnun vita þegar fyrirspurnin verði send.

Samkvæmt svari Umhverfisstofnunar hefur Arnarlax ekki sent matsfyrirspurn til Skipulagsstofnunar og beiðni um undanþágu ekki verið afgreidd í ráðuneytinu. Á meðan aðhefst Umhverfisstofnun ekkert í málinu og seiðin eru enn í kvíum við Hringsdal í trássi við starfsleyfi fyrirtækisins.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fiskeldi

Fyrirhugað gjald á fiskeldisfélög ýmist sagt allt of hátt eða of lágt

Fiskeldi

Segja frum­varps­drög ráð­herra stríðs­yfir­lýsingu

Fiskeldi

Lands­menn já­kvæðir í garð fisk­eldis á Vest­fjörðum

Auglýsing

Nýjast

Tölva Hauks á heimleið: „Kannski eitt ljóð enn“

Ung­lingar léku sér á næfur­þunnum haf­ís við Ísa­fjörð

Skóladrengir veittust að kyrjandi frumbyggja

70 missa vinnuna fyrir árslok

Tunglið verður almyrkvað í nótt

Drottningin og prinsinn beltislaus undir stýri

Auglýsing