„Okkur var sagt að við myndum fá íbúð eftir viku en svo dróst það. Loks kom póstur um að það myndi ekkert gerast á næstunni. Núna eru liðnar þrjár vikur og við óttumst það versta,“ segir fjölskyldufaðirinn Ásgeir Falk. Hann og eiginkona hans, Sigrún Líndal, misstu allt sitt í eldsvoða í Grafarvoginum fyrr í þessum mánuði. Þau eiga tvö börn, sex og tveggja ára, svo eiga þau von á þriðja barninu í september.

Það kviknaði í íbúðinni þegar sonur þeirra komst fyrir slysni í kveikjara. Íbúðina leigðu þau af Félagsbústöðum, en á meðan þau bíða eftir annarri íbúð dvelja þau á hóteli í Mosfellsbæ.

Ásgeir hefur miklar áhyggjur af framtíðinni. „Hótelherbergið er lítið, það er allt í lagi að vera hérna í viku, en núna eru liðnar þrjár og við bíðum í von og óvon hvort við séum í raun að fara að fá nýja íbúð. Þeir sögðu okkur að krossleggja fingur.“

Þau þurfa að greiða leigu af íbúðinni sem brann og myndu þurfa að greiða leigu af íbúðinni sem þau vonast til að fá. Hann er öryrki, en Sigrún starfar sem stuðningsfulltrúi, en þau hafa fengið fjárhags­aðstoð frá félagsþjónustunni til að greiða fyrir hótelið.

Biðin hefur ekki farið vel með andlegt ástand fjölskyldunnar. „Konan mín er kvíðin yfir ástandinu og er komin með samdrætti. Eldri strákurinn hefur verið mjög niðurdreginn síðan þetta gerðist. Nú er yngri strákurinn með mikinn kvíða yfir ástandinu og hefur lítið borðað síðustu daga,“ segir Ásgeir.

Hann vonar að lausn finnist sem fyrst, svo þau verði búin að koma sér fyrir áður en þriðja barnið kem­ur í heiminn. „Við misstum allt í brunanum og það tekur tíma að gera allt klárt.“

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir fullan skilning á því að fjölskyldan sé í erfiðri stöðu eftir eldsvoðann og mildi að ekki fór verr. „Allt kapp er lagt á að lagfæra íbúðina þeirra og koma henni í samt lag,“ segir Sigrún. Það mun skýrast á næstu dögum hvort fjölskyldan flytur aftur þangað, eða í annað húsnæði. Þegar tjón á sér stað í íbúð, sem verður til þess að ekki er unnt að búa þar, höfum við stundum getað útvegað aðra íbúð með skömmum fyrirvara, en það er ekki sjálfgefið.“

Eldsvoðann sé á engan hátt hægt að rekja til ástands fasteignarinnar, eða ábyrgðar húseigandans. „Það er leigusamningur um íbúðina og þau þurfa að borga af henni leiguna á meðan leigusamningurinn er í gildi,“ segir Sigrún. „Þegar eitthvað þessu líkt kemur upp, hvort sem það er í eigin húsnæði eða ekki, þá lendir fólk í millibilsástandi á meðan leitað er að öðrum lausnum.“

Velferðarsvið borgarinnar sér um alla félagslega aðstoð á vegum sveitarfélagsins og úthlutar lausum íbúðum til þeirra sem falla undir reglur um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Félagsbústaðir sjá svo um að ganga frá leigusamningum og allt annað sem viðkemur skyldum leigusala.