Umboðsmaður Alþingis hefur enn ekki gefið upp hvort embættið aðhafist nokkuð vegna kvörtunar Félags fornleifafræðinga vegna skipunar menningarmálaráðherra í stöðu þjóðminjavarðar.

„Við höfum ekkert heyrt,“ segir Gylfi Björn Helgason, formaður Félags fornleifafræðinga, spurður um stöðu kvörtunarinnar. Hún var lögð fram í lok ágúst eftir að Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra skipaði Hörpu Þórsdóttur, framkvæmdastjóra Listasafns Íslands, í embætti þjóðminjavarðar án auglýsingar. Í kjölfar ráðningar Hörpu heyrðist af gagnrýni samstarfsmanna Hörpu á Listasafninu á störf hennar þar og sagðist ráðherra myndu kynna sér þær raddir.

„Maður vonar að þetta sé fyrsta skrefið í því ferli að draga þessa ákvörðun til baka,“ segir Gylfi, sem aðspurður kveður að minnsta kosti sex til tíu manns innan fornleifafræðinnar myndu sækja um embætti þjóðminjavarðar væri það auglýst.

„Og það eru örugglega margir meðal safnafræðinga og sagnfræðinga líka sem hefðu áhuga. Þetta eru allt mjög flottir einstaklingar með langa reynslu og góða menntun sem hafa mjög skýra sýn á framtíðarstarf safnsins. Við höfum einmitt bent á að eitt af því sem tapast með því að auglýsa ekki er umræðan um það hvert á að stefna,“ bendir Gylfi á.

„Ráðherra hefur talað um að bjóða okkur á fund en við höfum ekki heyrt neitt hvað það varðar. Við bara bíðum átekta, það hlýtur að koma fljótlega.“

Að sögn Gylfa hefur starf Þjóðminjasafnsins tekið stórfelldum breytingum frá því að það var nánast einráða í fornleifarannsóknum. „Núna stundar safnið ekki neinar rannsóknir af viti. Margir myndu vilja auka rannsóknarvægi safnsins,“ segir hann.

Þá segir Gylfi marga hafa hug á að opna Þjóðminjasafnið. „Við sem þjóð erum allt öðruvísi en fyrir 20 árum. Það eru komin fleiri þjóðarbrot sem myndu hiklaust telja sig Íslendinga. Það er spurning hvernig við myndum reyna að ná til þess fólks.“