„Þetta tiltekna mál er til meðhöndlunar innan dómskerfis annars ríkis og utanríkisráðherra tjáir sig því ekki um það að svo stöddu,“ segir í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort íslensk stjórnvöld hyggist beita sér í þágu mannréttinda Julian Assange, sem handtekinn var í sendiráði Ekvador í London í síðustu viku.

Í viðtali í Silfrinu síðastliðinn sunnudag sagði Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, sjálfsagt að mál Julian fengi einhverja skoðun hjá íslenskum stjórnvöldum. Tengsl máls hans við landið og íslenska fjölmiðla væru augljós enda brotin sem hann er ákærður fyrir í raun framin hér á landi. Vísaði hann þar til gagna og myndefnis sem lekið var á síðu Wikileaks um stríðsglæpi bandaríska hersins í Bagdad og fréttastofa RÚV sagði fyrst allra fréttamiðla í heiminum frá þann 5. apríl 2010. Umrædd gögn eru grundvöllur ákærunnar sem krafa bandarískra yfirvalda um framsal Julian Assange byggir á.

Hvort íslensk stjórnvöld telji mögulegt að taka mál Julian fyrir í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er ekki skýrt af svari við fyrirspurn blaðsins en í því segir að ráðið fundi að jafnaði aðeins í föstum fundarlotum en þess á milli taki ráðið ekki afstöðu til einstakra mála. Næsta lota ráðsins hefst 24. júní.

„Við erum sammála um að það þurfi að bregðast við, en með hvaða hætti kemur í ljós,“ segir Milla Ósk Magnúsdóttir, varaformaður Félags fréttamanna á RÚV.

Aðspurð segir Milla stjórnina þó ekki nálgast málið á þeim grundvelli að það tengist fréttastofunni sérstaklega. „Við leggjum þvert á móti sérstaka áherslu á að bregðast ekki við vegna þess að málið tengist okkur sérstaklega eða að við séum í sérstöðu vegna málsins, heldur vegna grundvallarprinsippa í stéttinni.“ Hún segir stjórnina hafa hist einu sinni vegna málsins og munu funda aftur eftir páska og ákveða þá framhaldið.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að málið verði rætt á stjórnarfundi eftir páska og að þá megi ætla að málið verði bæði rætt á ársþingi Evrópusamtaka blaðamanna í maí og á þingi Alþjóðasambands blaðamanna í júní.

Flóttamannavernd uppljóstrara á Íslandi

Á grundvelli nýrra laga um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi 2016 geta uppljóstrarar sem eiga yfir höfði sér saksókn eða refsingu átt rétt á alþjóðlegri vernd, hafi þeir komið hingað til lands í leit að vernd.

Í kafla laganna um skilgreiningu á flóttamannahugtakinu er vísað sérstaklega til ofsókna vegna saksóknar eða refsingar sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli.

Í skýringum með ákvæði er vakin sérstök athygli á því að undir verndina kunni að falla einstaklingar sem „hafa þurft eða eiga á hættu að sæta saksókn eða refsingu fyrir að ljóstra upp um athafnir eða gera opinber gögn sem þagnarskylda hvílir á samkvæmt lögum þess ríkis sem í hlut á“.