Blaða­manna­fé­lag Ís­lands (BÍ) hvetur nefndar­menn fjárlaganefndar til þess að hækka styrki til einka­rekinna fjöl­miðla í sam­ræmi við hækkun fram­lags til RÚV. BÍ hefur sent inn at­huga­semdir til fjár­laga­nefndar Al­þingis um að í fjár­laga­frum­varpi ársins 2022 skuli vera gerð tveggja prósenta að­halds­krafa á styrki til einka­rekinna fjöl­miðla sem gerir það að verkum að þeir lækka um átta milljónir.

Fram kemur í til­kynningu frá fé­laginu að á sama tíma er aukning á fram­lögum til Ríkis­út­varpsins um 420 milljónir, sem er hærri upp­hæð en varið er saman­lagt til styrkja allra einka­rekinna fjöl­miðla á Ís­landi.

BÍ fagnar því í til­kynningu að auknu fé sé varið til fjöl­miðla og gerir ekki at­huga­semdir við aukningu til RÚV, heldur hvetur nefndar­menn til þess að hækka styrki til einka­rekinna fjöl­miðla í sam­ræmi við hækkun fram­lags til RÚV, um 8 prósent og þannig væru styrkirnir auknir um 30 milljónir í stað þess að þeir skerðist um átta milljónir.

Í um­sögn BÍ við fjár­laga­frum­varp á fjár­laga­nefnd Al­þingis kemur einnig fram að frá árinu 2018 og til loka árs 2020 fækkaði starfandi fólki í fjöl­miðlum 45 prósent, eða um 731 manns.

Þá er farið yfir reynsluna sem hefur skapast á þeim tveimur árum sem að einka­reknir fjöl­miðlar hafa fengið opin­bera styrki en þeir eru taldir sýna að þeir gríðar­lega miklu máli fyrir fjöl­miðla­fyrir­tæki í vexti og sem eru að þróa sjálf­bæran rekstur og hafa jafn­vel leitt til fjölgunar starfa á þeim miðlum.

Þá segir fé­lagið að í til­felli stærri fjöl­miðla­fyrir­tækja, sem treysta að uppi­stöðu á aug­lýsinga­tekjur, þá hafa styrkirnir mildað það högg sem kórónu­veirufar­aldurinn veitti þeim á­samt breyttum for­sendum á aug­lýsinga­markaði og gert þeim kleift að forðast fjölda­upp­sagnir.

Hægt er að kynna sér um­sögn fé­lagsins betur hér.