Blaðamannafélag Íslands hefur sagt sig úr Alþjóðasambandi blaðamanna, IFJ. Einnig tilkynntu systurfélög BÍ í Noregi, Danmörku og Finnlandi úrsögn sína á sama tíma og hafa Svíar einnig tilkynnt að þeir séu að ræða úrsögn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BÍ.
„Ástæðan fyrir úrsögninni er sú að IFJ hafa reynst ófær um að gera úrbætur í starfsemi sinni í samræmi við gagnrýni frá Norrænu blaðamannafélögunum og fleiri félögum, sem hefur verið viðvarandi í meira en tíu ár. Við erum ósátt við skipulag þinga og kosninga og skort á gagnsæi í ákvarðanatöku,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ.
Norrænu blaðamannafélögin hafa ítrekað kallað eftir umbótum á starfsháttum IFJ.
Í tilkynningu BÍ kemur fram að forysta IFJ hafi til að mynda látið það viðgangast að rússneska aðildarfélagið fylgdi eftir herskárri stefnu Rússa í Úkraínu, með því að stofna héraðsfélög rússnesku blaðamannasamtakanna á herteknum svæðum sem hafa þar með sjálfkraka fengið aðild að IFJ. Slíkt á einnig að hafa gerst í Georgíu, Níkaragva og Venesúela.
Einnig er tekið fram að IFJ valdi að halda ársþing sitt í Óman, þar sem ekki ríkir fjölmiðlafrelsi.
„Þetta er ekki auðveld ákvörðun, en við getum ekki verið meðlimur í alþjóðlegum blaðamannasamtökum þar sem vinnubrögð, menning og ákvarðanataka stenst alls ekki kröfur okkar um gagnsæi og lýðræðislegu ferli er ábótavant,“ segir Sigríður Dögg.
Ef úrsögnin verður samþykkt á aðalfundi BÍ í mars, þá mun hún taka gildi, með tilheyrandi lagabreytingum í lok júlí.
Hægt er að lesa tilkynningu BÍ í heild sinni hér.