Bandaríska stórsöngkonan Beyoncé hvetur fylgjendur sína til að krefjast réttlætis í máli George Floyd og mótmæla kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum.

„Við þurfum réttlæti fyrir George Floyd. Við urðum öll vitni að morði hans í skýru dagsljósi,“ segir Beyoncé í myndbandi sem hún birti á Instagram síðu sinni.

„Við getum ekki lengur litið undan,“ segir hún.

Lögregluþjónn, sem hefur nú verið handtekinn og ákærður fyrir morð, kraup á hálsi Floyd og þrengdi þannig að öndunarvegi hans og þrátt fyrir að Floyd náði að hósta út úr sér að hann væri að kafna, hélt lögreglumaðurinn áfram að þrýsta að hálsinum á honum.

Mótmæli og óeirðir víða um Bandaríkin

Söngkonan segir að þrátt fyrir að lögregluþjónninn hafi verið ákærður sé alls ekki búið að ná fram réttlæti í málinu.

Mótmæli fara nú fram í tólf borgum víða um Bandaríkin. Óeirðir hafa brotist út á nokkrum stöðum og hefur þjóðvarðarlið Bandaríkjanna verið kallað út í Minnesota. Málið hefur vægast sagt vakið mikla reiði og kynt undir réttindabaráttu svartra.

Hún bendir fylgjendum sínum á undirskriftalista sem er merkt með myllumerkinu #wecantbreathe. Þetta er vísun í síðustu orð George Floyd áður en hann lést.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlýsingu Beyoncé í heild sinni.