Bókaútgáfa Codex og bóksala Úlfljóts sluppu furðu vel úr vatnstjóninu í Háskóla Íslands í dag en bæði bóksalan og bókaútgáfan hafa um árabil verið með rekstur í kjallara Lögbergs.
Mikið tjón er í Háskóla Íslands eftir að kaldavatnslögn gaf sig í nótt með þeim afleiðingum að rúm tvö þúsund tonn af vatni flæddi inn í kjallara skólans. Mesta tjónið er í Gimli og í Háskólatorgi.
Tjón Codex og Úlfljóts er þó eitthvað þar sem nokkrar bækur sem voru í kössum á gólfinu skemmdust en stærsta tjónið er líklegast samansafn af gömlum tölublöðum Úlfljóts sem eyðilögðust.
Dagmar Helga Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljóts, þakkar fyrir það að stjórn Úlfljóts hafi verið nýbúin að taka til í kjallaranum.
„Það var svona 10 cm vatnslag á gólfinu hjá okkur. Við vorum heppin því við vorum nýbúin að taka tiltekt og setja mikið úr kössum upp í hillur. Þannig það var ekki mikið á gólfinu,“ segir Dagmar. „Það sem fór verst hjá okkur voru gömul tölublöð af Úlfljóti tímaritinu sem voru í geymslu,“ segir hún enn fremur.
Fóru sjálf í kjallarann að moka vatni
Fjárhagslegt tjón Úlfljóts er ekki mikið af sögn Dagmars þar sem engar dýrar námsbækur urðu fyrir vatnsskemmdum. „Heppilega voru dýrustu námsbækurnar upp í hillu þannig það var ekki mikið fjárhagslegt tjón en leiðinlegt samt að það séu talsverðar skemmdir á gömlum tölublöðum,“ segir Dagmar en Úlfljótur, tímarit laganema, hefur verið gefið út lengst allra fræðirita við Háskóla Íslands. Fyrsta tölublaðið leit dagsins ljós í lok febrúarmánaðar árið 1947.
„Við vorum heillengi að moka út vatni því slökkviliðið var að eiga við miklu meira magn af vatni en kom í kjallarann til okkar. Þeir voru í því að dæla. Þannig fyrst um sinn var enginn mannskapur í að dæla hjá okkur. Þannig við vorum að reyna eins og við gátum að bjarga kössum og því sem var á gólfinu og reyna skófla vatninu út,“ segir Dagmar
Sigfríð Elín Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Codex, segir bókaútgáfuna einnig hafa sloppið vel miðað við.
„Við fórum þarna snemma í morgun og náðum eiginlega að bjarga öllu. Við sáum fréttirnar rétt fyrir átta og það fór stór hluti af stjórninni og við tókum þá kassa sem voru eftir á gólfinu en allt annað í hillum bjargaðist. Þetta var smá tjón en við náðum að bjarga meirihlutunum,“ segir Sigfríð.
„Lögberg slapp furðu vel. Það var um 2 cm frá gólfinu hjá okkur,“ segir Sigfríð.
