Þær Sóley Dögg Hafbergsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg, og Guðbjörg Ása Hrólfsdóttir, sem starfar sem samgönguverkfræðingur hjá Hnit verkfræðistofu, hafa verið vinkonur í fjölda ára, eru nágrannar og eignuðust svo börn á sama tíma.

Eftir að hafa verið í hreiðurgerð og fæðingarorlofi á sama tíma ákváðu þær að stofna fyrirtækið Barnalán sem er byggt á hugmyndafræði deilihagkerfisins, en á vef fyrirtækisins geta einstaklingar leigt allar helstu meðgöngu- og barnavörur og þannig spornað gegn sóun.

„Við erum svart og hvítt en pössum saman,“ segir Guðbjörg Ása, hlær, og heldur áfram:

„Við sáum í fæðingarorlofinu hversu mikið dót fylgir þessum börnum og mikið af því er maður að nota í svo stuttan tíma. Ég upplifði það í það minnsta þannig að allar geymslur og hirslur fylltust fljótt.“

Tímafrekt að selja aftur

„Við erum að miða við að þjónustan sé alger, það er, þegar þú pantar vöruna þá keyrum við hana heim til þín og svo þegar þú ert búin/n að nota hana þá sækjum við hana. Þetta er umhverfisvænni kostur en að kaupa, en þar að auki er þetta líka ódýrara. Það á að vera ódýrara að leigja hoppirólu í þrjá mánuði en að kaupa hana nýja,“ segir Sóley.

Margir foreldrar þekkja það vel að kaupa eitthvað og svo selja það aftur, annaðhvort á netinu eða í endursöluverslunum eins og Barnaloppunni eða Gullinu mínu, en það er tímafrekt ferli og fólk með lítil börn þarf að ráðstafa tímanum vel.

Barnaloppan hefur vakið mikla lukku meðal foreldra.
Fréttablaðið/Stefán

„Fólk í fæðingarorlofi hefur nóg að gera,“ segir Sóley og bætir við: „Sumir mikla þetta fyrir sér og ég til dæmis endaði alltaf á því að gefa mitt dót, lána það eða geyma það í geymslunni. Þaðan kemur pælingin.“

Ekki umboðsleiga

Þær segja að í dag séu flestir að hugsa meira um umhverfið og hvernig þau geti lagt sitt af mörkum til að minnka áhrifin sem neysla þeirra hefur á umhverfið.

„Það getur verið erfitt að minnka neysluna þegar kemur að börnunum okkar, enda viljum við að þau fái allt sem eykur þægindi þeirra og veitir þeim gleði. Barnalán er okkar framlag til að leysa þennan vanda,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Þær segja að fyrirkomulagið verði þannig að þær kaupi inn hluti sem verða svo í leigu, en ekki verður í boði svokölluð umboðsleiga þar sem fólk getur skráð hlutina sína til leigu.

„Þetta eru hlutir sem við kaupum og þannig tryggjum við uppruna varanna og getum ábyrgst gæði þeirra. Við höfum heyrt sögur af því að fólk sé að kaupa notað og þegar eitthvað er skemmt er það ekki í ábyrgð. Við viljum ábyrgjast það sem við verðum með til leigu og viljum þess vegna kaupa það nýtt,“ segir Sóley.

Hún segir að innifalið í leiguverðinu sé trygging og akstur, nema sé verslað undir fimm þúsund krónum, þá þarf að greiða sérstaklega fyrir það.

Þær segja að til að byrja með verði aðeins hægt að leigja stóra hluti eins og ömmustól, baðsæti, baby brezza vélar, gönguvagn, kerrur, leikmottu og snúningslak, en að planið til lengri tíma sé að bjóða, til dæmis, upp á leigu á fatapökkum og jólafatnaði, fötum fyrir myndatökur og búningum.

Lágmarksleigutími er mánuður á flestum vörum en svo eru einstakar vörur sem er hægt að leigja í dagleigu, eins og ferðakerra og göngupoki. Þær segja að með leigunni geti fólk minnkað „startkostnaðinn“ sem fylgi því að eignast barn.

„Ef þú ert með magakveisubarn og þarft ömmustól með titring, eða ert með pelabarn og þarft pelavél. Þá er hagstæðara að leigja þetta í stuttan tíma en að kaupa þetta á fullu verði,“ segir Sóley, sem segir að þetta geti líka verið tækifæri til að prófa eitthvað í mánuð áður en fest eru kaup á mjög dýrri vöru.

Hægt er að skoða úrvalið á vefnum barnalan.is.