Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte segir ungt fólk í fyrstu fasteignakaupum koma að mjög óeðlilegu ástandi á markaði.

„Við fylgjumst grannt með þróun fasteignamarkaðarins og gerum það í gegnum fasteignamælaborð Deloitte, sem allir geta skoðað á vefnum hjá okkur. Þar, sérstaklega síðustu mánuði, hafa allir séð hvernig vextir hafa verið að þróast. Við bjuggumst við því að sjá fjölda samninga fækka,“ segir Ýmir Örn.

„Þannig er það oft með gögn, þá er það sem tölurnar segja ekki, kannski mesta fréttin. Við bjuggumst við að sjá verðleiðréttingu. Við bjuggumst líka við að sjá færri fasteignir seldar,“ segir hann.

„Þegar við skoðum minni fasteignir og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, höfum við séð verðleiðréttingu, fimm prósent á síðustu fimm-sex mánuðum, en það er enn töluverð virkni í markaðnum.“

Ýmir Örn segir vexti hafa hækkað gríðarlega mikið. „Það mun slá fljótt á þá sem eru að taka ný lán. En þá sjáum við að hlutfall verðtryggðra og óverðtryggðra lána hefur algjörlega breyst. Nú eru allir að taka verðtryggð lán,“ segir hann.

Að sögn Ýmis Arnar er mjög mikill munur á því að taka verðtryggt og óverðtryggt lán. „Það er gríðarlega mikill munur á mánaðarlegu afborguninni. Við erum með mjög háa verðbólgu og verðbólga hækkar verðtryggð lán. Ef þú skuldar 10 milljónir í dag, og það er 10% verðbólga, skuldarðu 11 milljónir eftir 12 mánuði,“ segir hann.

„Það er að eiga sér stað ákveðin leiðrétting á fasteignamarkaði. Fasteignaverð hækkaði mjög hratt í kjölfar Covid, þegar vextir voru mjög lágir. Það er mikil hækkun. Uppsöfnuð eftirspurn, verðið fer upp. Nú erum við ennþá að sjá lækkun. Hversu mikil og hversu langan tíma hún tekur vitum við ekki.“

Ýmir Örn segir að þar sem Ísland sé lítið búi landsmenn við sveiflukennt hagkerfi og þar sé fasteignamarkaðurinn ekki undanskilinn. „Því miður hefur það stundum verið þannig að það er ákveðið lottó hvenær þú kaupir. Það þekkja allir setninguna: ég keypti á réttum tíma. Sérstaklega núna skiptir það rosalega miklu máli, sérstaklega í þessu árferði, að ungt fólk skoði kostina, og skoði hverju það er að gangast við,“ segir hann.

Ýmir Örn segir að fyrir kaupendur að fyrstu eign geti verið ráðlegt að bíða með kaupin.

Ýmir Örn var í viðtali við Fréttavaktina 28. febrúar 2023. Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum hér að neðan.