Fyrr­verandi full­trúa­deildar­þing­maðurinn frá Texas, Robert „Beto“ O'Rour­ke, hefur til­kynnt að hann muni bjóða sig fram til em­bættis for­seta Banda­ríkjanna á næsta ári. 

Frá þessu greindi Beto í sjón­varps­við­tali í Texas en miklar vanga­veltur hafa verið uppi um hvort hann gæfi kost á sér. Í nóvember bauð Beto fram til öldunga­deildar fyrir heimaríki sitt, vígi Repúblikana, Texas.

Þar laut hann naum­lega í lægra haldi gegn Repúblikananum Ted Cruz en náði þó besta árangri sem Demó­krati hefur náð í ríkinu í ára­tugi. Um leið vakti hann at­hygli fyrir fram­komu sína sem þótti líkja þeirri sem Barack Obama, 44. for­seti Banda­ríkjanna, við­hafði í sinni kosningabar­áttu. 

Beto er fimm­tándi Demó­kratinn sem til­kynnt hefur fram­boð til em­bættis for­seta. Hann hefur nú bæst í hóp stjórn­mála­manna á borð við Eliza­beth War­ren, Berni­e Sanders, Kamala Har­ris, Amy Klobuchar og Pete Buttigi­eg, auk fleiri.