Auglýsendur þurftu að kaupa að lágmarki tíu milljóna króna auglýsingapakka hjá Ríkisútvarpinu til að komast að á besta stað í kringum leiki Íslands í riðlakeppni HM í Rússlandi.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins seldust allir svokallaðir Premium-auglýsingapakkar RÚV upp fyrir HM en þeir fólu líka í sér möguleika á auglýsingum í öðrum dagskrárliðum RÚV í júní og júlí. Gagnrýnt hefur verið að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hafi ryksugað upp auglýsingamarkaðinn fyrir sumarið og bundið allt auglýsingafé fyrirtækja út árið í HM-pökkum sínum, á kostnað frjálsra fjölmiðla sem einhverjir hafa kvartað til yfirvalda. ÚTvarpsstjóri hafnar því að binding felist í pakkanum.

Fréttablaðið hefur glærukynningu á auglýsingapakka RÚV fyrir HM undir höndum. Þar er auglýsendum boðinn kostunarsamningur sem felur í sér kostun á þáttum fyrir og eftir alla 64 leikina á HM, allt að 20 sekúndur í hálfleik í leikjum Íslands í HM, 240 sekúndur í hálfleik í æfingaleikjum Íslands í aðdraganda HM, 400 sekúndur í íslenskum og erlendum þáttum í aðdraganda HM og kostun á Sögu HM þáttunum sem sýningar hófust á í febrúar. Þessi kostunar/auglýsingasamningur er verðlagður á 13 milljónir króna, án virðisaukaskatts.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá námu tekjur RÚV af kostun á dagskrárefni 158 milljónum í fyrra.

Það eru hins vegar svokallaðir Premium-auglýsingapakkar sem verið hafa umdeildir. Þeir tryggja bestu staðsetningar í leikjum Íslands í riðlakeppninni og öðrum leikjum á mótinu samkvæmt kynningarefninu. Pakkinn felur í sér bindingu til að kaupa auglýsingar fyrir að lágmarki 10 milljónir króna í júní og júlí, þar sem sekúnduverðið í leikjum Íslands verður 20 þúsund krónur en sekúnduverð á öðrum leikjum HM 8-15 þúsund, og forkaupsrétt á birtingum í leikjum Íslands eftir riðlakeppnina.

Kynningarefni þetta virðist vera frá því í vor. Samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið fékk í síðustu viku, daginn fyrir upphafsleik HM, voru allir stóru auglýsingapakkarnir uppseldir hjá RÚV.

Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um auglýsingatekjur og kostnað RÚV við keppnina. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir áætlaðan kostnað vegna HM og afleiddrar dagskrár nema 220 milljónum. Heildarkostnaður liggi þó ekki fyrir fyrr en að móti loknu. Inni í þeirri tölu sé sýningarréttur sem RÚV er tryggður í gegnum EBU, Evrópusamband útvarps- og sjónvarpsstöðva, sem samdi við FIFA árið 2012.

Magnús segir enn óljóst hverjar tekjurnar eru þar sem mótið sé rétt að hefjast.

„Vegna umræðu um svokallaða „Premium pakka“ er þess að geta að sekúnduverð fyrir einstaka leiki er það sama gagnvart öllum viðskiptavinum og ekki bundið neinum skilyrðum um auglýsingamagn né öðrum auglýsingakaupum eins og ætla mætti af því sem hefur komið í fjölmiðlum.“

Ríkisútvarpið fékk 4,1 milljarð króna í beint framlag frá ríkinu í fyrra og hafði að auki tvo milljarða króna í tekjur af auglýsingasölu.