Tómas Guðbjartsson hefur birt uppfærða gönguleið sem sýnir það sem hann telur bestu leiðina að gosinu í Meradölum.

Uppfærða leiðin sem Tómas vill vekja athygli á liggur frá Suðurstrandavegi í norður að Fagradalsfjalli og leiðir svo niður í átt að Meradalshnjúk þar sem nýju gosstöðvarnar eru staðsettar. Leiðina teiknaði hann inn á kort sem hann hafði áður gefið út í samstarfi við Ferðafélag Íslands.

Leiðin hefur nú einnig verið stikuð af Björgunarsveitinni Þorbirni svo auðvelt er að fylgja leiðinni bæði nótt og dag þar sem stikurnar eru útbúnar með gráu endurskini.

Tómas hefur merkt leiðina með gulu sem nú hefur verið stikuð af björgunarsveitum.
Mynd/TómasGuðbjartsson&FI

Vilja vekja athygli á örnefnum og náttúruvernd

Kortið sem Tómas uppfærði var upprunalega unnið í samstarfi við Ferðafélag Íslands og sýndi þá gönguleiðir að gosinu í Fagradal.

Tómas segir að tilgangur kortsins hafi verið að auka öryggi þeirra sem vilja bera gosið augum en einnig til vekja athygli á þeim örnefnum sem leynast á svæðinu.

„En kortið var líka búið til í þeim tilgangi að beina fólki ákveðnar gönguleiðir svo gróðurinn myndi ekki skemmast. En kortið var unnið í samstarfi við landeigendur á Hrauni,“ segir Tómas en hann er mikill áhugamaður um göngur og útivist.

Kortið sem um ræðir er nú til á sex tungumálum og hægt að nálgast það á vef Ferðafélags Íslands hérna.

„Það er svona QR kóði sem hægt er að nota til þess að nálgast PDF skjal á netinu. Svo treystum við bara því að fólk borgi þessa upphæð sem rennur áfram til góðs málefnis. Þá getur fólk borgað fyrir afnot af kortinu og hlaðið því inn á síma. Það er líka hægt að nálgast kortið á skrifstofu Ferðafélags Íslands eða í útivistarbúðum," segir Tómas og tekur fram að nýjasta útgáfan verði svo birt á næstu dögum: „Þá fær fólk uppfærða útgáfu á símann í gegnum QR kóðann," segir hann.

Tómas var fljótur að drífa sig uppeftir þegar gosið fór af stað í Meradölum.
Mynd/TómasGuðbjartsson

Vindáttin skiptir máli

Það sem ber þó að hafa í huga við val á gönguleiðum er að vindátt getur skipt miklu máli þar sem mikið gas og reyk leggur frá gosinu. „Gönguleiðin fer algjörlega eftir vindátt og þessi leið sem ég er að mæla með hún miðast við norðanátt“ segir Tómas og segir aðkomuna að gosinu mjög tilkomumikla ef þessi leið er farin: „skilyrðin í þessari norðanátt eru alveg stórkostleg því þú getur setið þarna í brekku sem er bara eins og hringleikahús og horft undan vindi.“

Mikinn reyk og gas leggur frá gosinu.
Mynd/TómasGuðbjartsson

Veðurstofa Ísland gaf nýverið út spálíkan fyrir gasmengun þar sem hægt er að kynna sér stefnu gasmengunar og þá vindátt sem verður ríkjandi. Hægt er að nálgast spá Veðurstofunnar hér.

Tómas segir þó að ef sunnanátt bresti á sé hægt að fara aðra átt sem liggur eftir Langahrygg og upp á Stóra-Hrút.

„Það er miklu meiri gashætta á ferðum í þetta skiptið þar sem þetta er bara miklu kröftugra gos“ segir Tómas en talið hefur verið að þetta gos sé í kringum 3-5 sinnum stærra en hið fyrra sem var við rætur Fagradalsfjalls.

Hægt er að njóta þess að horfa á gosið hvort sem er um nótt eða dag.
Mynd/TómasGuðbjartsson

Það sem er mikilvægt að hafa í huga

Tómas telur að mikilvægt sé að hafa ákveðin atriði í huga áður en haldið er af stað í átt að gosstöðvunum.

„Þetta er töluvert lengra en í fyrsta gosinu“ segir Tómas „Þá voru þetta svona fjórir og hálfur kílómetri sem ganga þurfti frá Suðurstrandarvegi að góðum útsýnisstað til að sjá yfir stærsta gíginn. Núna þarftu að ganga töluvert lengra eða átta og hálfan eða níu kílómetra.“

Tómas bendir þá á að líkamlegt hreysti sé nauðsynlegt til að ganga þessa leið: „Þú þarft að vera sæmilegu formi til að fara þetta. Þetta er grýtt leið og þú ert að labba í hraunkantinum og þannig þarftu að passa þig að misstíga þig ekki eða pompa niður um hraunhellur.“

Annað sem Tómas segir að hafa verði í huga er klæðnaður: „Vera vel skóaður með húfu og vettlinga því í norðanáttinni þá verður mjög kalt þarna, sérstaklega um nótt,“ segir Tómas og bætir við: "Það er allt of mikið af fólki, þá sérstaklega útlendingum, sem eru allt of illa búnir.

Loftmynd af eldgosinu í Meradölum.
Mynd/AntonBrink

Gosið fallegast í ljósaskiptunum

Annað sem Tómas bendir á er að gosið sé sérstaklega tilkomumikið rétt í kringum ljósaskiptin.

„Það er sólsetur þarna í kringum hálf ellefu og það er svona fallegasti tíminn núna. Á milli hálf ellefu og hálf tólf. Þá dettur inn þessi tími sem RAX er alltaf að tala um, þessi ljósaskipti, þannig að fyrir þá sem hafa möguleikann á því að vera ekki allt of snemma á ferð þá er þetta stórkostlegasti tíminn. Þetta er samt falleg hvort sem er um dag eða nótt.“ segir Tómas en tekur þó einnig fram að hafa verði í huga ákveðna hluti ef ganga á um nótt: „Það er mikilvægt fyrir þá sem stefna á að vera þarna seint um nótt að vera með höfuðljós. Því það er farið að vera dimmt núna á leiðinni til baka," segir hann.