Vel­ferðar­nefnd Al­þingis mun á morgun funda um reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra sem snýr að komu fólks til landsins en nefndin mun þar tala hefja um­ræður um hvort talið sé að þörf sé á að­gerðum að sögn Helgu Völu Helga­dóttur, formanns nefndarinnar.

„Við funduðum síðast á fimmtu­dags­morgun og seinni partinn fengum við öll gögnin send án tak­markana,“ segir Helga Vala í sam­tali við Frétta­blaðið en þar sem nefndin á enn eftir að ræða gögnin er ó­ljóst hvað fundurinn muni bera í skauti sér.

Nefndin mun þó lík­lega ræða hvort og þá hvernig þau vilji koma að laga­setningu og hvernig fram­haldinu verður háttað. Þá verður rætt hvort nefndar­fólki finnist til­efni til að skjóta laga­stoð undir reglu­gerðina þannig heimild verði í lögum um dvöl í sótt­varnar­húsi

Vill fara sömu leið og nágrannalöndin

Reglu­gerðin sem um ræðir tók gildi þann 9. apríl síðast­liðinn eftir að fyrri reglu­gerð, sem tók gildi 1. apríl, var felld úr gildi þar sem héraðs­dómur úr­skurðaði að ekki væri full­nægjandi laga­stoð fyrir því að skylda ein­stak­linga til að dvelja í sótt­kví í sótt­varna­húsi.

Að­spurð um hvort hún telji að heil­brigðis­ráð­herra hafi haft nægt sam­ráð við nefndina vegna sótt­varna­að­gerða vísar Helga til þess að það sé í lögum að heil­brigðis­ráð­herra skuli upp­lýsa þingið um slíkar að­gerðir.

„Ég kallaði eftir því að við færum sömu leið og ná­granna­lönd okkar sum hver,“ segir Helga og vísar til þess að í lögum þeirra landa þurfi ráð­herra að bera í­þyngjandi að­gerðir undir þingið innan viku frá því að gripið er til slíkra að­gerða. „Mér hefði fundist það betra ef við hefðum þetta þannig því þetta eru svona mikil inn­grip að það væri best fyrir alla, ekki síst ráð­herra.“

Fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis

Sam­kvæmt nýju reglu­gerðinni eru skýrari kröfur gerðar um skil­yrði fyrir heima­sótt­kví, þá sér­stak­lega varðandi hús­næði, þar sem fólki er heimilt að vera í heima­sótt­kví að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum. Þeir sem ekki hafa tök á slíku geta dvalið í sótt­varna­húsi og er dvölin þar við­komandi að kostnaðar­lausu.

Reglu­gerðin byggist á til­mælum Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis en ekki eru allir sáttir við hana, til að mynda Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, sem sagði í svari sínu til Helgu Völu að lög­gjafar­valdið hefði brugðist með því að greina ekki skýrt frá því hvað felist í sótt­kví og hvaða heimildir eru fyrir slíku í lögum.

„Við túlkun laga beitum við lög­skýringum sem byggjast á lög­fræði en ekki heil­brigðis­vísindum. Ég vil fara að til­mælum sótt­varnar­læknis en fyrir þeim að­gerðum verða að vera heimildir í lögum,“ sagði Helga ein­fald­lega í svari sínu til Kára.