Demó­kratinn og öldunga­deildar­þing­maðurinn Berni­e Sanders hefur á­kveðið að draga sig í hlé og draga sitt framboð til forseta Bandaríkjanna til baka. Frá þessu er greint á vef CNN. Leiðin er því greið fyrir Joe Biden sem mun mæta Donald Trump í kosningum í nóvember.

Á vef CNN segir Sanders hafi greint sam­starfs­fólki sínu sím­leiðis frá þessari á­kvörðun. Sanders, sem er 77 ára, hafði áður lofað að byggja sterka gras­rótar­hreyfingu sem gæti komið til móts við pólitíkina eins og hún er í dag. Sanders sagði í tölvu­pósti til sam­starfs­fólks og stuðnings­manna á síðasta ári:

„Okkar her­ferð snýst um að búa til ríkis­stjórn og hag­kerfi sem virkar fyrir all, ekki einungis fáa.“

Þá bað Sanders í sama skeyti um að ein milljón manns myndi skrá sig til að taka þátt í her­ferð hans.

Árið 2016 þegar hann bauð fram á móti Clin­ton var hann í fyrstu ekki talinn lík­legur til vin­sælda. Hann endaði þó með því að vinna til­nefningu til for­seta­fram­bjóðanda í 23 ríkjum og að koma flokknum lengra til vinstri. Sanders hafði verið ó­væginn í gagn­rýni á Donald Trump og sagði Trump vera hættu­legasta for­seta í amerískri sögu. Þá sagði Sanders einnig:

„Við erum að bjóða fram gegn for­seta sem er sjúk­legur lygari, svikari, kyn­þátta­hatari, karl­remba og ein­hver sem grefur undan amerísku lýð­ræði um leið og hann færir okkur nær vald­boði.“

Ekkert verður nú að því að Sanders mæti Trump, það mun, eins og áður segir, koma í hlut Joe Biden.