Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders tilkynnti í dag að hann ætli aftur að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann tapaði, eins og kunnugt er, tilnefningu Demókrata til frambjóðanda flokksins til forsetakosninganna árið 2016 til Hillary Clinton. Greint er frá á Reuters. 

Sanders, sem er 77 ára, tilkynnti um framboð sitt í löngum tölvupósti sem hann sendi á stuðningsfólk sitt. Hann lofaði í tölvupóstinum að byggja sterka grasrótarhreyfingu sem gæti komið til móts við pólitíkina eins og hún er í dag.

„Okkar herferð snýst um að búa til ríkisstjórn og hagkerfi sem virkar fyrir all, ekki einungis fáa,“ sagði Sanders í tölvupóstinum og bað um að ein milljón manns myndi skrá sig til að taka þátt í herferð hans.

Árið 2016 þegar hann bauð fram á móti Clinton var hann í fyrstu ekki talinn líklegur til vinsælda. Hann endaði þó með því að vinna tilnefningu til forsetaframbjóðanda í 23 ríkjum og að koma flokknum lengra til vinstri. Í frétt Reuters um málið segir að það hafi skapað togstreitu innan flokksins.

Ferli að tilnefningu til frambjóðanda flokksins hefst formlega í febrúar á næsta ári og er sá sem verður tilnefndur líklegur til að mæta núverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í kosningabaráttu um forsetaembættið.

Sanders hefur verið óvæginn í gagnrýni sinni á Trump og sagði í tölvupósti sínum í morgun að Trump væri „hættulegasti forseti í amerískri sögu“.

„Við erum að bjóða fram gegn forseta sem er sjúklegur lygari, svikari, kynþáttahatari, karlremba og einhver sem grefur undan amerísku lýðræði um leið og hann færir okkur nær valdboði,“ sagði Sanders í tölvupósti sínum.

Aðrir sem hafa tilkynnt um framboð sitt í í Demókrataflokknum eru öldungadeildarþingmennirnir Cory Booker, Kamala Harris, Kirsten Gillibrand, Amy Klobuchar og Elizabeth Warren.

Hér að neðan má sjá myndskeið sem Sanders birti á Twitter um framboð sitt.