Um áramótin verða tímamót í fjölmiðlun í Danmörku þegar dagblaðið B.T. hættir að koma út í prentuðu formi og færir sig alfarið yfir á netið.

B.T. kom fyrst út 1916 sem léttari útgáfa Berlingske Tidende, elsta dagblaðs Danmerkur. Frá upphafi var B.T. ætlað að keppa við Ekstra Bladet, slúðurblað Politiken-útgáfunnar, sem hóf göngu sína 1904 sem kvöldblað Politiken en varð strax ári síðar sjálfstæður miðill.

Á velmektarárum þeirra í kringum 1990 seldust hátt í 200 þúsund eintök af hvoru blaði á dag. Síðan hefur dregið mjög úr útbreiðslu þeirra og segja má að slagurinn færist í sífellt auknum mæli á netið.

Pernille Holbøll, nýr aðalritstjóri B.T., segir vefútgáfu B.T. hafa sprungið út á síðustu fjórum árum og vera orðna stærsta fréttamiðil Danmerkur.

Á sama tíma hafi prentupplagið minnkað mikið og standi ekki lengur undir sér fjárhagslega. Áherslan sé því lögð á símann, þar sem flestir Danir fá nú sínar fréttir.

Með þessu verður B.T. fyrsta dagblaðið í Danmörku til að verða með öllu rafrænt en búist er við að fleiri fylgi í kjölfarið.