Borgarráð Reykjavíkur hafnaði í gær beiðni á breytingu á deiliskipulagi um þá kvöð íbúa að hafa berjarunna á sérafnotareit. Berjarunninn skal því fara niður. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun þar sem bent er að forræðishyggjan birtist víða. „Þá vekur athygli að þótt ekki eigi að tryggja íbúum frelsi um ráðstöfun eigin garða, er ekki fyrirhugað að framkvæma lokaúttekt á sérafnotareitunum,“ segir í bókun flokksins.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi flokksins, spurði hverjar afleiðingarnar yrðu ef íbúar myndu hafa reitinn eins og þeir vildu. Svarið sem hún fékk var að ekki yrði framkvæmd lokaúttekt á umræddum sérafnotareitum. Aðrir íbúar gætu hins vegar kvartað til borgarinnar og þá yrði skilmálaeftirlitið sent á svæðið. „Þetta eru auðvitað fráleit afskipti af heimilum fólks. Kerfið verður að vera sveigjanlegt,“ segir Hildur hissa.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins sem einnig er garðyrkjufræðingur, veit varla hvort hún eigi að hlæja eða gráta yfir þessari niðurstöðu. Í bókun hennar segir að þetta séu trúlega minnstu garðar í heimi þar sem verði að vera berjarunni til að gróðurþekjan og líffræðileg fjölbreytni á svæðinu haldi sér. „Það er ekki hægt að skálda svona vitleysu upp – en allt er greinilega hægt í Reykjavík.“