Bergþóra Birnudóttir sem örkumlaðist þegar dóttir hennar kom í heiminn fyrir fyrir nokkrum árum, hefur fengið grænt ljós frá Sviss og kemst að í aðgerð þar hjá lækni sem sérhæfir sig í grindarhols- og mjaðmagrinda vandamálum. Frá þessu greinir Sirrý Sæmundsdóttir, vinkona Birnu, á Facebook síðu sinni. Þá segir jafnframt að Bergþóra hafi ákveðið að fara, þrátt fyrir að aðgerðin sé ekki án áhættu, í þeirri von um að lifa verkjaminna lífi.

Bergþóra var í ítarlegu viðtali í fréttaskýringarþættinum Kveik fyrir nokkru og þar kom fram að Bergþóra hlaut þriðju gráðu spangartætingu sem geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Þá hlaut hún einnig mikinn tauga- og vöðvaskaða í grindarbotni og við endaþarm. Meðal þess sem hefur reynst nauðsynlegt að gera var að fjarlægja neðsta hluta ristils Bergþóru sem er með stóma í dag. Þá var lífbein Bergþóru í sundur og fylgdu því óbærilegar kvalir og lá hún á sjúkrahúsi í tvær vikur.

Í kjölfar þáttarins lýsti Bergþóra vonum sínum um að komast í aðgerð í Sviss í því skyni að eitthvað af skaðanum geti gengið til baka.

„Ég er að vona að ég komist til hans en það er náttúrulega tíu milljón króna dæmi,“ sagði Bergþóra en læknirinn hennar hefur unnið með téðum sérfræðingi.

„Hann hefur unnið með honum og ég er að vona að með hans hjálp komist ég í gegnum sjúkratryggingar til Sviss. Ef hann nær að losa um einhverjar taugar eða eitthvað slíkt. Þá væri það strax einhvers konar lífsgæðaskref eins og ég er búin að vera taka með stómaaðgerðinni og mænuörvunum,“ sagði Bergþóra.

Setja af stað söfnun

Aðgerðin kostar þó 10 milljónir króna og hafa vinir Bergþóru því sett af stað söfnun til að styðja við fjölskylduna. Þeir sem hennar sögu þekkja eru hvattir til að leggja henni lið. Í færslunni kemur einnig fram að Kveikur og Jón Ívar Einarsson, kvensjúkdómalæknir, muni fylgja henni í aðgerðina.

Fyrrnefndur Kveiksþáttur vakti mikil viðbrögð og í kjölfarið fór af stað umfangsmikil umræða um öryggi sjúklinga, ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks gagnvart sjúklingum og rödd kvenna innan heilbrigðiskerfisins. Frásögn Bergþóru veitti öðrum konum kjark til að stíga fram og segja frá sinni reynslu af heilbrigðiskerfinu, vandamálum sem komu upp í meðgöngu, þar sem ekki var hlustað á þær.

Þeirra á meðal var Lilja Alfreðsdóttir, ferðmála-, viðskipta og menningarmálaráðherra, sem sagði frá sinni reynslu af erfiðri fæðingu sem hún gekk í gegnum árið 2007 í þætti Kastljóss í þann 30. mars síðastliðinn.

Þeir sem vilja styrkja Bergþóru og fjölskyldu hennar er bent á reikningsupplýsingar sem birtar eru á Facebook-færslu Sirrýjar:

Kt.231078-3639

0515-14-407432