Bergþóra Birnudóttir hefur ekki haft undan við að taka við sögum kvenna, hvatningarorðum eða hvoru tveggja eftir að fjallað var um fæðingarsögu hennar þætti Kveiks í síðustu viku.

„Mér þykir ótrúlega vænt um það, hver einasta saga er jafn mikilvæg og mín,“ segir Bergþóra í samtali við Fréttablaðið en hún vonast eftir því að komast í læknismeðferð til Sviss vegna skaðans sem hún hlaut í fæðingunni.

Að sögn Bergþóru átti hún von á miklum viðbrögðum vegna þáttarins og einnig einhverri vörn, þó ekki eins mikilli og raun ber vitni. Hún segir viðbrögð formanns Ljósmæðrafélags Íslands sem og viðbrögð yfirlæknis fæðingarþjónustu Landspítalans, hafa komið sér mest að óvart eftir að þátturinn var sýndur.

Enginn hlustaði

Í þætti Kveiks á RÚV var fjallað um mál Bergþóru sem örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur hér á landi.

Í umfjöllun Kveiks kom fram að Bergþóra hefði ítrekað óskað eftir aðstoð vegna meðgöngu sinnar en að ekki hafi verið hlustað á hana. Í fæðingunni hlaut Bergþóra þriðju gráðu spangartætingu sem geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Þá hlaut hún einnig mikinn tauga- og vöðvaskaða í grindarbotni og við endaþarm. Meðal þess sem hefur reynst nauðsynlegt að gera var að fjarlægja neðsta hluta ristils Bergþóru sem er með stóma í dag. Þá var lífbein Bergþóru í sundur og fylgdu því óbærilegar kvalir og lá hún á sjúkrahúsi í tvær vikur.

Bergþóra fór heim af fæðingardeildinni í sjúkrabíl og fylltist heimilið af hjálpartækjum. Sex árum síðar eru flest tækin enn til staðar. Hún gengur við göngugrind eða notar hjólastól í dag.

Bjartsýn og vongóð

Bergþóra er bjartsýn á framhaldið og segist full vonar eftir að hafa heyrt viðtal við Steinunni Þórðardóttur, formann Læknafélags Íslands, sem fór fram í Vikulokin á Rás 1 um helgina.

Þar fagnaði Steinunn því að heilbrigðisráðherra hafi endurvakið starfshóp um öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Þörf væri á aðgerðum strax og skýra þyrfti ábyrgð stofnana í heilbrigðiskerfinu og þeirra sem þar starfa.

Bergþóra segir umræðuna um það sem illa fer mjög mikilvæga og af henni þurfi að draga lærdóm.

Vonast eftir meðferð í Sviss

Líkt og fyrr segir örkumlaðist Bergþóra við fæðingu dóttur sinnar og segir hún aðspurð ekki ljóst hvort eitthvað af skaðanum muni ganga til baka, það sé þó ólíklegt.

„En ég er auðvitað alltaf að vona og ég gefst ekkert upp. Ég er að vona núna að ég komist til Sviss,“ segir Bergþóra og bætir við að hún hafi heyrt af lækni sem sérhæfi sig í í aðstoða konur með mjaðmagrindar- og grindarhols vandamál.

„Ég er að vona að ég komist til hans en það er náttúrulega tíu milljón króna dæmi,“ segir Bergþóra sem mun funda með Jóni Ívari Einarssyni, kvensjúkdómalækni, í mánuðinum vegna þessa.

„Hann hefur unnið með honum og ég er að vona að með hans hjálp komist ég í gegnum sjúkratryggingar til Sviss. Ef hann nær að losa um einhverjar taugar eða eitthvað slíkt. Þá væri það strax einhvers konar lífsgæðaskref eins og ég er búin að vera taka með stómaaðgerðinni og mænuörvunum,“ segir Bergþóra sem bindur miklar vonir um að komast í meðferð í Sviss.

Bergþóra og dóttir hennar nýkomin í heiminn.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Litlu sigrarnir

„Stoðkerfislega mun ég ekki hljóta neinn meiri bata en ég er að vona að það verði eitthvað hægt að gera fyrir mig meira að innan, taugalega séð,“ segir Bergþóra.

„Þó það væri ekki nema þannig að ég geti setið lengur, ég á svo erfitt með að sitja það er svo mikil lífsgæða skerðing.“

Að sögn Bergþóru getur hún eingöngu setið stutta stund í einu og ef hægt væri að aðstoða hana með það vandamál væri hún strax í betri málum.

„Þó ég verði aldrei aftur söm en þá er ég viss um að það sé enn hægt að hjálpa mér meira. Það eru þessir litlu sigrar og ég vona að þeir haldi áfram,“ segir Bergþóra.

Aðspurð um heilsu dóttur hennar sem fæddist með ofvaxtarheilkenni segir Bergþóra hana glíma við ýmsan vanda en að hún dafni vel.