Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins var kjörinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar á fundi nefndarinnar fyrir stundu.
Bergþór hlaut þó einungis tvö atkvæði en fleiri atkvæði voru ekki greidd um formennskuna. Aðeins Bergþór sjálfur og Karl Gauti Hjaltason greiddu atkvæði. Allir aðrir nefndarmenn sátu hjá.
Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki var endurkjörinn varaformaður nefndarinnar og Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri grænum 2. varaformaður.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggja nefndarmenn nú fram bókanir um kjörið til að skýra hjásetu sína um jafn umdeilt mál og kjör Bergþórs er.
Deilt hefur verið um formennsku í nefndinni frá því hann kom aftur á þing eftir stutt hlé í kjölfar Klausturmálsins.
Nefndin er ein þriggja nefnda sem stjórnarandstaðan fer með formennsku í samkvæmt samkomulagi við stjórnarflokkana. Vegna ósamlyndis meðal stjórnarandstöðuflokkana tók Jón Gunnarsson Sjálfstæðisflokki og varaformaður nefndarinnar við formennsku í nefndinni tímabundið.
Ítrekað hefur verið boðað til fundar í nefndinni frá því þing var sett í síðustu viku. Allir fundir hafa verið afboðaðir nema fundur sem haldinn var í gær. Honum var hins vegar slitið eftir að Björn Leví Gunnarsson lagði til að Karl Gauti Hjaltason flokksfélagi Bergþórs yrði gerður að formanni.
„Ég er persónulega að segja að mér finnst að Bergþór eigi ekki að vera formaður en ég virði samkomulagið alveg. Fyrst að það er annar Miðflokksmaður í nefndinni finnst mér frekar að hann eigi að vera formaður. Þannig ég stakk frekar upp á Karli Gauta enda er hann mjög hæfur í þetta,“ sagði Björn Leví Gunnarsson við frettabladid.is að fundi loknum í gær.
Eftir að tillaga Björns Leví var borin upp var fundi frestað. Í kjölfarið fundaði meirihluti nefndarinnar með Miðflokksmönnunum. Því næst funduðu nefndarmenn meirihlutans örstutt og var fundi svo slitið í kjölfarið og sagt að næsti fundur yrði boðaður seinna.
Svo virðist sem þverpólitískur ágreiningur hafi verið uppi í málinu. Engin samstaða hefur verið í minnihlutanum þar sem aðrir flokkar en Miðflokkur vilja ekki styðja Bergþór sem formann. Engin samstaða er heldur milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokka annarra en Miðflokks og hefur þingflokkur VG stutt annan formann úr minnihlutanum.
Þá herma heimildir blaðsins einnig að engin samstaða sé um formennskuna milli þingflokks VG annars vegar og Sjálfstæðisflokks hins vegar og hafi Vinstri græn ekki verið reiðubúin að sitja uppi með Jón Gunnarsson á formannsstóli færi svo að stjórnarflokkarnir tækju formennsku í nefndinni. Mun VG hafa íhugað að freista þess að gera Ara Trausta Guðmundsson að formanni í krafti reiknireglna þingsins færi svo að samningar um formennskuna færu út um þúfur.