Berg­þór Óla­son þingmaður Miðflokksins var kjörinn for­maður um­hverfis- og sam­göngu­nefndar á fundi nefndarinnar fyrir stundu.

Bergþór hlaut þó einungis tvö atkvæði en fleiri atkvæði voru ekki greidd um formennskuna. Aðeins Bergþór sjálfur og Karl Gauti Hjaltason greiddu atkvæði. Allir aðrir nefndarmenn sátu hjá.

Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki var endurkjörinn varaformaður nefndarinnar og Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri grænum 2. varaformaður.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggja nefndarmenn nú fram bókanir um kjörið til að skýra hjásetu sína um jafn umdeilt mál og kjör Bergþórs er.

Deilt hefur verið um for­mennsku í nefndinni frá því hann kom aftur á þing eftir stutt hlé í kjöl­far Klaustur­málsins.

Nefndin er ein þriggja nefnda sem stjórnar­and­staðan fer með for­mennsku í sam­kvæmt sam­komu­lagi við stjórnar­flokkana. Vegna ó­sam­lyndis meðal stjórnar­and­stöðu­flokkana tók Jón Gunnars­son Sjálf­stæðis­flokki og vara­for­maður nefndarinnar við for­mennsku í nefndinni tíma­bundið.
Í­trekað hefur verið boðað til fundar í nefndinni frá því þing var sett í síðustu viku. Allir fundir hafa verið af­boðaðir nema fundur sem haldinn var í gær. Honum var hins vegar slitið eftir að Björn Leví Gunnars­son lagði til að Karl Gauti Hjalta­son flokks­fé­lagi Berg­þórs yrði gerður að for­manni.

„Ég er per­sónu­lega að segja að mér finnst að Berg­þór eigi ekki að vera for­maður en ég virði sam­komu­lagið alveg. Fyrst að það er annar Mið­flokks­maður í nefndinni finnst mér frekar að hann eigi að vera for­maður. Þannig ég stakk frekar upp á Karli Gauta enda er hann mjög hæfur í þetta,“ sagði Björn Leví Gunnars­son við fretta­bladid.is að fundi loknum í gær.

Eftir að til­laga Björns Leví var borin upp var fundi frestað. Í kjöl­farið fundaði meiri­hluti nefndarinnar með Mið­flokks­mönnunum. Því næst funduðu nefndar­menn meiri­hlutans ör­stutt og var fundi svo slitið í kjöl­farið og sagt að næsti fundur yrði boðaður seinna.

Svo virðist sem þver­pólitískur á­greiningur hafi verið uppi í málinu. Engin sam­staða hefur verið í minni­hlutanum þar sem aðrir flokkar en Mið­flokkur vilja ekki styðja Berg­þór sem for­mann. Engin sam­staða er heldur milli stjórnar­flokkanna og stjórnar­and­stöðu­flokka annarra en Mið­flokks og hefur þing­flokkur VG stutt annan for­mann úr minni­hlutanum.

Þá herma heimildir blaðsins einnig að engin sam­staða sé um for­menns­kuna milli þing­flokks VG annars vegar og Sjálf­stæðis­flokks hins vegar og hafi Vinstri græn ekki verið reiðu­búin að sitja uppi með Jón Gunnars­son á for­manns­stóli færi svo að stjórnar­flokkarnir tækju for­mennsku í nefndinni. Mun VG hafa í­hugað að freista þess að gera Ara Trausta Guð­munds­son að for­manni í krafti reikni­reglna þingsins færi svo að samningar um for­menns­kuna færu út um þúfur.