Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, vill breyta lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds þannig að hverjum og einum greiðanda verði heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins.

Bergþór lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni og þingmanni Miðflokksins, þar sem lagt er til að breyta þessum lögum.

Miðflokksmenn vilja að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sem tók nýlega við nýrri stöðu sem ferðamála- , viðskipta- og menningarmálaráðherra, leggi fram frumvarp í samráði við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds verði breytt.

Gætu tekið undir með Miðflokksmönnum

Miðflokkurinn hefur áður borið upp þessa hugmynd og fjármálaráðherra hefur einnig lýst efa­semdum um virkni út­varps­gjaldsins. Þegar málið var til umræðu á Alþingi í fyrra sagði Bjarni hugmyndina áhugaverða en hún væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Sömuleiðis lýsti Lilja því yfir þegar hún var menntamálaráðherra að hún vildi taka RÚV af auglýsingamarkaði. Þegar fjölmiðlafrumvarp hennar var samþykkt fyrr á árinu sagðist Lilja hafa viljað ganga lengra en ekki náðist sátt um að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Miðflokksmenn leggja til að Alþingi feli ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt.

Nefskattur sem tryggi einokunarstöðu

Samkvæmt núgildandi lögum þurfa allir skattskyldir einstaklingar á Íslandi að greiða sérstakt gjald til RÚV sem nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum.

„Hér er um að ræða nefskatt sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt,“ segir Bergþór í greinagerð sinni en hann telur að slík einokunarstaða ríkismiðils sé óeðlileg nú á tímum.

„...og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana,“ segir Bergþór.