„Það hefur kannski gleymst í öllu atinu hjá okkar á­gætu ráð­herrum að það er graf­alvar­legt mál að læsa fólk inni. Fólk sem er ekki einu sinni veikt,“ segir Berg­þór Óla­son, þing­maður Mið­flokksins. Berg­þór skrifar grein í Morgun­blaðið í dag en þar gagn­rýnir hann sótt­varnar­að­gerðir yfir­valda.

Berg­þór bendir á að fyrir ári síðan hafi margir þurft að draga saman seglin um jólin þegar kom að sam­veru­stundum enda heims­far­aldur í fullum gangi og bólu­setningar varla hafnar hér á landi.

„Enginn var al­menni­lega öruggur, ekki var hægt að úti­loka fjölda al­var­legra veikinda­til­fella sem hefði getað riðið Land­spítalanum að fullu miðað við mat þeirra sem best áttu að þekkja til. Það var því á­stæða til að fara að öllu með gát – fyrir ári. En síðan þá hefur margt breyst en þó ekki allt,“ segir Berg­þór.

Meinað að njóta jólanna með ástvinum

Hann bendir á að ís­lenska þjóðin sé nær full­bólu­sett – og flestir þeirra 90% bólu­settra eru þrí­bólu­settir. Al­var­leg veikinda­til­felli séu því sem betur fer fá.

„Meira fé var lagt til Land­spítalans undir þeim for­merkjum að mæta Co­vid-19 um leið og við­kvæmir hópar sem ekki geta þegið bólu­setningu hafa haldið sig til hlés af illri nauð­syn eins og gagn­vart öðrum smit­sjúk­dómum sem herja á sam­fé­lög þessa heims. Á sama tíma og allar þessar að­stæður ættu að bjóða eðli­legt líf fyrir fólk hér á landi stöndum við frammi fyrir því, aftur, að fólki sé meinað að njóta jólanna með ást­vinum sínum í nafni sótt­varna.“

Berg­þór bendir á í grein sinni að flestir þeirra sem „hnepptir eru í varð­hald“, það er sótt­kví eða ein­angrun séu full­frískir eða finni fyrir léttum flensu­ein­kennum.

„Þegar þetta er skrifað eru ellefu á sjúkra­húsi og tveir á gjör­gæslu, 2.449 í sótt­kví og 1.724 í ein­angrun,“ segir Berg­þór sem vill ekki meina að þetta sé heims­far­aldrinum að kenna heldur lé­legri stjórn heil­brigðis­mála undan­farin tvö ár, eða frá því að far­aldurinn hófst.

Grafalvarlegt mál

„Fátt hefur verið gert til að auka getu spítalans til að taka á móti þessum al­var­legu veikinda­til­fellum. Rúmum hefur ekki fjölgað og frá­flæðis­vandi spítalans hefur ekki verið leystur. Því fé sem veitt var til Land­spítalans, um­fram það sem áður var, virðist ekki hafa verið varið til að leysa brýnasta vandann er við­kemur Co­vid-19, á þeirri stöðu ber fyrr­verandi heil­brigðis­ráð­herra, sem enn situr í ríkis­stjórn, fulla á­byrgð.“

Berg­þór segir graf­alvar­legt mál að læsa fólk inni, fólk sem er ekki einu sinni veikt.

„Fólk sem hefur ekkert gert af sér annað en að fylgja öllum leið­beiningum, boðum og bönnum stjórn­valda í heims­far­aldri – bólu­sett sig ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar undir því lof­orði að þá getum við horfið aftur til eðli­legs lífs. Þetta má ekki gerast aftur – fyrsti tíminn er bestur til að átta sig á því – frelsi okkar og geð­heilsa er í húfi,“ segir hann.