Bergsveinn Birgisson, rithöfundur, rennir frekari fræðilegum stoðum undir ásakanir sínar um meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, í grein sem hann birti í nýjasta hefti Sögu, tímariti Sögufélagsins, sem kom út í síðasta mánuði.
Í greininni, sem ber fyrirsögnina „Rýnt í ritstuld úr svörtum víkingi“ ítrekar Bergsveinn fullyrðingar sínar um að Ásgeir Jónsson hafi gerst sekur um ritstuld úr bók hans Leitin að svarta víkingnum og segir seðlabankastjóra hafa notfært sér hugmyndir úr þeirri bók án þess að geta heimilda í bókinni Eyjan hans Ingólfs.
Málið fór mikinn í fjölmiðlum síðasta vetur og leiddi meðal annars til þess að siðanefnd Háskóla Íslands sagði af sér vegna afskipta Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ, sem taldi að nefndin gæti ekki fjallað efnislega um ásakanirnar á hendur Ásgeiri vegna þess að hann er í launalausu leyfi frá störfum sínum við hagfræðideild háskólans.
Leggur málið undir dóm almennings
Bergsveinn kveðst hafa fundið sig knúinn til að skrifa greinina til að „gera skýra grein fyrir mínu sjónarhorni á málið, skoða það í samhengi við siðareglur og tilvísanareglur annarra þjóða og leggja þannig málið undir dóm fræðasamfélags og almennings á Íslandi“.
Ásakanir hans snúast í grunninn um það að Ásgeir hafi gerst sekur um svokallaðan „rannsóknarstuld“ á tilgátum sínum um rostungsveiðar landnámsmanna úr áðurnefndri bók Bergsveins, Leitin að svarta víkingnum, sem kom fyrst út í Noregi 2013 en í íslenskri þýðingu hér á landi 2016.
Að sögn Helgu Kress, prófessors emeritus í almennri bókmenntafræði við HÍ, er rannsóknarstuldur það „þegar höfundur tekur rannsóknaspurningar, röksemdafærslu og rannsóknarniðurstöður úr birtu verki eftir annan og setur fram sem sínar eigin“.
Ég hef því gert það eina sem ég get gert, en það er að gera skýra grein fyrir mínu sjónarhorni á málið, skoða það í samhengi við siðareglur og tilvísanareglur annarra þjóða og leggja þannig málið undir dóm fræðasamfélags og almennings á Íslandi.

Ekki alvörugefið fræðirit
Ásgeir hefur alla tíð neitað sök og jafnframt kom Helgi Þorláksson, prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ, honum til varnar í álitsgerð í ársbyrjun 2022. Þar er því meðal annars haldið fram að rit Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs, sé ekki „alvörugefið fræðirit“ heldur eingöngu „leikmannsþankar“ og hafi Ásgeir því ekki verið bundinn sömu reglum um vísun í heimildir og væri hann sjálfur sagnfræðingur.
Þar að auki vilja Helgi og Ásgeir meina að í umfjöllun sinni um rostungsveiðar landnámsmanna í Eyjunni hans Ingólfs hafi seðlabankastjóri vísað til hugmynda sem voru vel þekktar í miðaldafræðum áður en bók Bergsveins kom út.
Lítur ekki á sig sem upphafsmann
Bergsveinn kveðst ekki líta á sig sem upphafsmann þessara hugmynda en fullyrðir að í verkum hans, þar með talið Leitinni að svarta víkingnum, sé að finna fyrstu rækilegu umfjöllunina „þar sem þessum hugmyndum eru gerð skil í heilli bók“.
Þá telur Bergsveinn það vera fráleitt að hugmyndir sem hann hafi eytt áratugum í að rannsaka og þróa í fræðastörfum sínum hafi skyndilega umbreyst yfir í almenna þekkingu í meðförum Ásgeirs Jónssonar:
„Ég sjálfur lít á mitt framlag sem tilgátu, sem nýja sýn á þennan part sögunnar, og því er eðlilegt að ég spyrji hvernig þetta gat svo skyndilega orðið að almennri þekkingu. Slík tilgáta er ekki hrist fram úr ermi rétt fyrir jólabókaflóð,“ skrifar hann.
Þá er að lokum að nefna hið augljósa, að annaðhvort gilda reglur og prinsipp um alla menn eða engan mann.
Von á annarri grein
Að sögn Bergsveins er um að ræða umfangsmikinn ritstuld sem hann lítur alvarlegum augum. Þá ætlar hann að gera málinu ítarlegri skil í annarri grein sem hann hyggst birta á heimasíðu sinni.
„Málið sé ég sem alvarlegt af fleiri ástæðum. Eitt er að ritþjófurinn, sem er seðlabankastjóri lýðveldisins, hefur áður verið ásakaður um ritstuld, en annað er hvernig sá sami kallaði til fyrrverandi prófessor í sagnfræði til að reyna að bera í bætifláka fyrir það sem ég sé ekki betur en séu forkastanleg vinnubrögð í fræðastarfi.“
Þá segir Bergsveinn að þau kerfi fræðasamfélagsins sem hefðu með raun réttri átt að taka fyrir ásakanir hans hafi brugðist. Annars vegar siðanefnd Háskóla Íslands, sem sagði af sér, og hins vegar Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum, sem skipuð var 2019 en hefur enn ekki tekið til starfa.
„Þá er að lokum að nefna hið augljósa, að annaðhvort gilda reglur og prinsipp um alla menn eða engan mann,“ skrifar hann að lokum. Grein Bergsveins má lesa í heild sinni í nýjasta hefti Sögu – Tímariti Sögufélags.