Berg­þór Óla­­son, þing­maður Mið­­flokksins, stýrir fundi um­­hverfis- og sam­­göngu­­nefndar sem hófst klukkan níu í morgun. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Þing­­maðurinn sneri aftur á þing í síðustu viku á­­samt flokks­bróður sínum, Gunnari Braga Sveins­­syni, eftir tíma­bundið leyfi frá þing­­störfum vegna Klausturs­­málsins. 

Berg­þór er for­maður nefndarinnar en Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók við stöðunni á meðan leyfi hins fyrrnefnda stóð. Frétta­blaðið greindi frá því á föstu­­dag að meiri­hluti nefndarinnar teldi Berg­þóri ekki stætt til áframhaldandi formannssetu eftir það sem á undan hefur gengið.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna sem situr í nefndinni, sagði að næstu skref væru í höndum minni­hlutans sem fékk á sínum tíma úthlutað þremur formannsstólum í nefndum þingsins. Ari sagði að til stæði að þing­­flokks­­for­­menn þeirra flokka sem ekki sitja í ríkis­­stjórn ræddu málin á fundi í gær. „Við í meiri­hlutanum erum í raun og veru ekki að vasast með þetta mál, þetta er í höndum minni­hlutans. En þetta verður rætt í hópi þing­­flokks­­for­manna á mánu­­dag.“

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Ari Trausti hefði tekið við stöðu formanns tímabundið af Bergþóri. Það er hins vegar rangt því Jón Gunnarsson tók við stöðu formanns. Fréttin hefur verið uppfærð.