Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, ætlar að taka sæti á Alþingi að nýju. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Bergþór tók sér leyfi frá þingmennsku eftir að upptökur af samtali sex þingmanna sem sátu að sumbli á Klaustur bar á meðan þingfundur fór fram voru birtar í lok nóvember. 

Á upptökunum má heyra Bergþór kalla Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“ og segja að hún sé „fokking tryllt“. Um Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði hann „þarna kom loksins skrokkur sem typpið á mér dugði í.“

Bergþór segist ætla að berjast fyrir hagsmunum fólks í sínu kjördæmi og fyrir þeirri stefnu sem flokkur hans byggir á. 

Hann segir að eftir að upptökurnar af Klaustri voru gerðar opinberar hafi hann ákveðið að taka sér leyfi, ná áttum og líta í spegil. Hann segir að sér hafi þótt slæmt að fjölmiðlum þætti sjálfsagt að birta þetta „drykkjuraus“ opinberlega, verra hve margir voru ánægðir með þetta, en verst að heyra í sjálfum sér.

Hann segist hafa leitað til sálfræðings og áfengisráðgjafa og sé miður sín yfir mörgu sem hann sagði þetta kvöld. „Sérstaklega yfir því að orð mín hafi orðið til þess að særa fólk, sem ég hef aldrei viljað særa, en varð skiljanlega sárt“ þegar það heyrði upptökuna af samtalinu.

Hann segist bera ábyrgð á eigin orðum, en heldur því um leið fram að tal þingmannanna hafi verið „ósmekklegt en meiningarlaust raus yfir glasi, sem engan særði“.

Ekki kom fram hvenær hann hyggst snúa aftur á Alþingi.