Bíll Berglindar Guðmundsdóttur varð alelda á örfáum mínútum í gær og mátti litlu muna að um stórslys yrði að ræða.
„Ég er búin að vera í mikilli vinnutörn og hafði smá tíma eftir næturvakt til að útrétta það sem hafði setið á hakanum. Þegar ég er að koma heim byrjar að rjúka úr mælaborðin og á 3-5 mínútum varð bíllinn alelda,“ segir Berglind í samtali við Fréttablaðið.

Berglind hafði verið á næturvakt á Landspítalanum um nóttina og eftir að hafa lagt sig ákvað hún að skjótast og útrétta hluti fyrir heimilið.
„Ég lagði bílnum og hljóp út. Hringdi í neyðarlínuna og nokkrum mínútum síðar kemur lögreglan og slökkviliðið. En þá var bíllinn þegar orðinn alelda. Það gekk vel að slökkva eldinn og þegar ég hugsa til baka get ég ekki annað en verið þakklát fyrir hversu flott fólk við höfum og kemur okkur til hjálpar þegar á reynir,“ segir hún.
Einblínir á að allir séu óhultir
Berglind greindi frá atvikinu á Facebook síðu sinni í gær en þar segist hún sem betur fer hafa verið ein í bílnum þegar eldurinn kom upp.
„Ég þakka fyrir að hafa náð gaskútnum út sem ég hafði verið að kaupa til að geta eldað steik fyrir mig og krakkana. Sú steik endaði „well done“ í orðsins fyllstu. Mér var eðlilega brugðið og tek því rólega í kvöld, en þegar öllu er á botninn hvolft slasaðist enginn og hægt að bæta fyrir bílinn og það sem í honum var,“ skrifaði Berglind.
Berglind viðurkennir að vera verulega brugðið eftir atvikið en hún einblíni á það að allir séu óhultir. Þá þakkar hún slökkviliðinu og lögreglunni kærlega fyrir sín störf.
„Ég er búin að vera svona frekar aum eftir þetta, enda ekki á hverjum degi sem maður lendir í svona. En ég einblíni á það að allir eru óhultir.“