Í dag eru þrjú ár síðan Bergur Snær Sigurþóruson svipti sig lífi í kjölfar misnotkunar og áfalla. Móðir hans Sigurþóra Bergsdóttir skrifaði í dag undir leigusamning vegna Suðurgötu 10 í Reykjavík. Þar verður starfrækt Bergið Headspace, sem er hjálparúrræði fyrir ungt fólk að ástralskri fyrirmynd. „Það er táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns í að leggja drög að úrræði sem mun vonandi hjálpa ungmennum dagsins í dag og til framtíðar,“ skrifar hún á Facebook í dag.

Sigurþóra segir í samtali við Fréttablaðið að Bergið verði staður þar sem ungt fólk geti komið án skilyrða; staður þar sem tekið verði á móti fólki með hlýju og skilningi. Um sé að ræða „lágþröskuldaúrræði“ fyrir ungt fólk sem þarfnast stuðnings eða leiðsagnar.

„Þetta er svolítið stórt en við ákváðum að stökkva af stað og trúa því að við getum þetta,“ segir Sigurþóra um tíðindi dagsins. Þeim verður afhent húsnæðið 1. apríl en stefnt er að því að opna úrræðið í sama mánuði. „Nú hefst vinnan fyrir alvöru.“

Sigurþóra, sem átti frumkvæðið að stofnun Bergsins, segir að upphaflega hafi staðið til að opna meðferðarúrræði. Hún hafi hins vegar áttað sig á því, þegar betur var að gáð, að mörg úrræði séu í boði fyrir ungt fólk í vanda. Þó þau séu góð séu þau hins vegar flest því marki brennd að hólfa fólk niður, þar sé þjónustan oft mjög sérhæfð. Til Bergsins geti fólk leitað við minni tilefni og ekki síst áður en vandinn er orðinn mikill. Fólk geti mætt í Suðurgötuna eða bókað tíma hjá ráðgjafa og fengið viðtal.

„Við ætlum okkur að vera með góð tengsl við önnur úrræði. Ef vandinn er stór og flókinn, þá getum við vonandi hjálpað fólki að finna fund leið,“ segir hún. Sigurþóra sér einnig fyrir sér að bjóða upp á fjarþjónustu með aðstoð Kara Connect, þar sem hægt er að fá fund hjá ráðgjafa í gegn um fjarfundabúnað. Slíkt geti til dæmis hentað því fólki sem býr út á landi.

Aðspurð segir Sigurþóra að samið verði til að byrja með við fjórar til fimm fagmanneskjur sem munu vinna hjá Berginu í hlutastörfum. Bergið hafi fengið stuðning frá Reykjavíkurborg auk þess sem þau séu í viðræðum við ríkið um stuðning. Hún segir hins vegar að betur megi ef duga skuli og skorar á alla þá sem lagt geta starfseminni lið að láta í sér heyra.

Aðalfundur samtakanna fer fram í nýju húsnæði 8. apríl. „Við viljum hvetja alla sem hafa áhuga á starfinu að koma á fundinn og styðja okkur,“ segir hún að lokum. Hér fyrir neðan má sjá færslu frá Sigurþóru, þar sem finna má upplýsingar um hvernig hægt er að leggja starfseminni lið.