Einstaklingur kom upp að nemendum í 7. bekk Seljaskóla fyrr í dag og beraði sig. Þetta kemur fram í tilkynningu sem skólastjórnendur Seljaskóla sendu foreldrum og forráðamönnum barna í skólanum rétt í þessu. Hringbraut greindi fyrst frá.

Kemur fram í tilkynningunni að nemendur hafi brugðist hárrétt við og látið starfsfólk skólans þegar í stað vita. Þá hefur verið haft samband við forráðamenn þeirra barna sem urðu fyrir áreitinu.

„Við höfðum tafarlaust samband við lögregluna og hefur hún tekið við rannsókn málsins. Við munum að sjálfsögðu auka viðbúnaðarstig í frímínútnagæslu vegna þessa,“ segir í tilkynningu frá skólastjórnendum.

Þá eru ítrekuð þau tilmæli Lögreglu að árétta við börn sín að ef eitthvað slíkt kemur upp utan skóla eigi þau tafarlaust að hafa samband í símanúmerið 112.