Svartur bolur með hvítu friðarmerki

Það er ekki á allra vitorði en friðarmerkið sem er orðið alþjóðlegt í hugum flestra var upphaflega bara einkennismerki bresku friðarsamtakanna CND. Ég reyni að eiga alltaf einn eða tvo opinbera CND-boli í fataskápnum og panta þá beint frá höfuðstöðvunum í Lundúnum. Er oft stoppaður af túristum á götum, einkum gömlum bandarískum hippum, sem lýsa sérstakri ánægju sinni.

Argentína 1978

Ég er of ungur til að muna eftir HM í Argentínu undir stjórn herforingjastjórnarinnar árið 1978 og hugmyndir mínar um þá keppni eru að miklu leyti fengnar úr þeirri epísku teiknimyndasögu Fótboltafélagið Falur í Argentínu (með viðkomu á Íslandi). Innan um mér eldra fólk bregst það ekki að þessi bolur verði kveikja að nostalgískum upprifjunum á Mario Kempes eða hinu lánlausa skoska landsliði.

Grár Foldu-bolur

Alinn upp á róttæklingaheimili þá lærði ég vitaskuld að lesa af Þjóðviljanum. Þar voru bestu myndasögurnar og toppurinn voru sögurnar um Foldu. Argentínskar myndasögur um samfélagslega meðvitaða smákrakka og rammpólitískan undirtón. Sex ára gamla Folda hafði sífelldar áhyggjur af vígbúnaðarkapphlaupi, vistkreppu og misskiptingu auðsins – og sex ára gamli Stefán tengdi sterkt.

Stefán í bolum tengdum Teiti, Lady Brewery og landsliðstreyju Úrúgvæ.
Fréttablaðið/Valli

Lady Brewery
Svartur og hvítur bolur. Smábrugghúsasenan hefur sprungið út á Íslandi síðustu misserin. Brugghúsin eru mörg hver agnarlítil, en flest kappkosta þau þó að láta útbúa hvers kyns derhúfur, hettupeysur eða stuttermaboli. Lady Brewery hefur verið kallað „Reykjavíkurdætur bjórsins“, þar sem það er vettvangur fyrir þá kvenbruggara sem hafa tíma aflögu hverju sinni. Alltaf frumlegur bjór og flott hönnun í öndvegi.

Landsliðstreyja Úrúgvæ
Þetta er líklega víðförlasti bolurinn í skápnum. Frá unga aldri hef ég verið sérstakur unnandi úrúgvæska landsliðsins í knattspyrnu og verið duglegur að halda þeim stuðningi mínum á lofti á samfélagsmiðlum. Skáldjöfurinn og erki-Framarinn Einar Kárason rak augun í þetta. Hann átti uppi í hillu úrúgvæskan landsliðsbúning sem kollegi hans hafði fært honum á einhverju rithöfundaþingi í Suður-Ameríku. Honum fannst bolurinn eiga betur heima í mínum höndum og afhenti hann við viðhöfn.

Hvítur bolur með mynd af Teiti
Teitur er einhver allra skemmtilegasti tónlistarmaðurinn okkar, jafnt sem trúbador eða í einhverri stórhljómsveitinni. Hann hefur reglulega spilað fyrir okkur hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi og við eitt slíkt tækifæri keypti ég þennan stórglæsilega bol sem tryggir manni sterka viðveru hvar sem farið er.