Hjónin Dögg Gunnars­dóttir og Er­ling Ormar Vignis­son hafa á­samt krökkunum sínum undan­farnar tvær vikur staðið í ó­trú­legu stappi vegna ó­boðinna gesta á heimilinu, en upp komst um veggja­lýs (e. bed bugs) sem tekið höfðu sér ból­festu í rúmum á heimilinu. Tíu dögum eftir að eitrun hófst eru þau mörgum hús­gögnum fá­tækari og hljóp kostnaður við ný hús­gögn og vinnu við að losna við dýrin á hundruðum þúsunda en hjónin vonast til þess að ó­væran sé dauð.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Er­ling að hann telji hjónin ekki sloppin yfir línuna fyrr en eftir tvær vikur, en sam­kvæmt upp­lýsingum þeirra frá mein­dýra­eyði tekur það pöddurnar allt að þann tíma til að klekjast úr eggjum sínum, ef ske kynni að ein­hver slík hafi komist undan að­gerðum undan­farinna daga.

Hann tekur það fram að fjöl­skyldan sé fyrst og fremst ó­trú­lega þakk­lát miklum stuðning frá vinum og vanda­mönnum sem hafi að­stoðað fjöl­skylduna undan­farnar vikur.

„Hvað gat þetta verið?“

Fjöl­skyldan rekur þetta ó­trú­lega mál í langri Face­book-færslu. Þar segja þau frá því að dóttir þeirra hafi í sumar byrjað að fá þrá­lát út­brot. Hjónin hafi talið að um væri að ræða lús­mý á þeim tíma.

Þegar fór að kólna í veðri fóru hjónin með dóttur sína til læknis því út­brotunum linnti ekki. Læknirinn ráð­lagði þeim að skipta um þvotta­efni og gaf þeim á­bendingu um að leita að starra­hreiðum við þak­skeggið, sem engin voru. Því næst pöntuðu þau tíma hjá of­næmis­lækni en út­brotin á­gerðust.

„Eftir að hafa prófað að láta blessað barnið sofa á sófanum frammi, þar sem út­brotin skánuðu, var okkur farið að gruna rúmið hennar. Hún virtist nefni­lega alltaf skána þegar hún færði sig og svaf í sjón­varps­sófanum. Hvað gat þetta verið? Efnið í rúminu? Sængin? Þvotta­efnið? Kannski? Kannski ekki?“ skrifa hjónin.

Þá hafi Er­ling tekið sig til og prófað að sofa í rúmi dóttur sinnar. Þegar hann hafði legið í rúminu í fimm­tán mínútur seint um kvöld, kom dóttir hans inn í her­bergið. Benti hún pabba sínum á pöddur sem skriðu á sænginni.

Þegar Er­ling lyfti upp sænginni til að skoða málið betur komu í ljós fjöl­margar pöddur í við­bót sem sprottið höfðu fram í skjóli myrkurs þegar þær urðu varar við nær­veru í rúminu, allar sem ein til­búnar að „fá sér að drekka.“

Erling náði að fanga eina pödduna á mynd.
Fréttablaðið/Aðsend

Ekki annað í stöðunni en að plasta hús­gögnin og henda

Er­ling og Dögg lýsa því þá næst hvernig þau höfðu uppi á reynslu­miklum mein­dýra­eyði sem aðrir mein­dýra­eyðar höfðu sér­stak­lega bent fjöl­skyldunni á. Hann stað­festi grun þeirra að um væri að ræða veggja­lýs, eða svo­kallaðar rúmpöddur.

Í ljós hafi komið að í rúmi dóttur þeirra voru hundruð dýra, einnig í stórum spegli sem stóð við rúmið og mögu­lega í hljóm­borði sem stóð þar nærri. Hjónin segja þessa hluti alla hafi verið plastaða inn og hent, enda ekkert annað í stöðunni. Þau hafi vonast til þess að plágan hefði ekki leitað lengra í húsinu þeirra.

Óskir þeirra rættust þó ekki en pöddur fundust einnig í sjón­varps­sófa þeirra, inni hjá syni þeirra og komust þau svo að því nokkrum dögum síðar að pöddurnar hefðu einnig komið sér fyrir í rúmi þeirra hjóna á neðri hæð hússins.

„Þessi dýr eru rosa­leg. Til þess að losna við full­orðin dýr úr flíkum eða efni þarf að þvo allt á háum hita og þurrka í þurrkara, eða frysta þær í tvær vikur við að minnsta kosti -18 gráður, helst enn kaldara,“ skrifar fjöl­skyldan. Erfitt sé að koma eitri að öllum þeim felu­stöðum sem pöddurnar geti nýtt sér og egg þeirra geti lifað slíka með­ferð af. Pöddurnar bera ekki með sér sjúk­dóma en eru aðal­lega til mikils ama.

Þær lifa, þrátt fyrir ís­lensku nafn­giftina, ekki í veggjum hússins sjálfs heldur halda sig nærri rúmum þar sem þær eru lík­legastar til að hitta fyrir fólk sem þær bíta að nóttu til. Þess vegna er á­hrifa­ríkasta lausnin að farga hús­gögnum eins og rúmum og sófum þar sem talið er að dýrin geti haldið sig.

Allir kjólar Daggar, þar á meðal brúðkaupskjóllinn fóru í frystinn.
Fréttablaðið/Aðsend
Húsgögnin plöstuð og færð út úr húsinu.
Fréttablaðið/Aðsend
Fjölskyldan varð að umturna lífi sínu vegna plágunnar.
Fréttablaðið/Aðsend

Enn para­nojuð en ó­trú­lega þakk­lát fyrir stuðninginn

Er­ling segir fjöl­skylduna alls hafa eytt rúm­lega tíu dögum í að­gerðir til að losna við ó­væruna úr húsinu. Á meðan hafi fjöl­skyldan sofið á vind­sængum inni í stofu. Þau hafi þurft að kaupa ný rúm, sjón­varps­sófa og -borð, enda ekkert annað í stöðunni.

„Nú erum við á þeim stað að við höldum að við séum búin að upp­ræta vandann. En það tekur ein­hvern tíma í við­bót því að ef ein­hver egg gætu hafa komist undan, að þá tekur það kannski tvær þrjár vikur að klekjast út,“ segir hann. Því sé hann og fjöl­skyldan enn vör um sig og fylgjast vel með.

Er­ling segir að þau hjónin hafi á­kveðið að skrifa Face­book-færslu vegna málsins til að þakka fyrir þann gífur­lega stuðning sem þau hafi fundið fyrir upp á síð­kastið. Ný­verið barst þeim ó­væntur glaðningur frá nánustu fjöl­skyldu og vinum sem vildu styðja þau í pöddu­stríðinu. Þau segja erfitt að koma í orð hve þakk­lát þau eru.

„Við þökkum ykkur hér, því við vitum ekki ná­kvæm­lega hver þið eruð,“ skrifa hjónin. Er­ling segir stuðninginn ó­trú­legan. Nú sé að vona það besta upp á fram­haldið.

„Nú þarf maður bara að­eins að losa sig við para­nojuna sem fylgir þessu. Um leið og maður strýkst utan í eitt­hvað eða ef mann klæjar lítil­lega ein­hvers staðar, þá hugsar maður núna ó­sjálf­rátt um rúmpöddurnar en það hlýtur að ganga yfir.“

Vinir og vandamenn fjölskyldunnar komu henni á óvart með glaðning og ótrúlegum stuðning.
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend