Það verður ekki ófrægari ökumaður en Rhys Millen sem aka mun Bentley Bentayga jeppa í fjallklifurskeppninni Pikes Peak í Colorado í sumar. Hann hefur tvisvar unnið þessa frægustu klifurkeppni heims, sem þetta árið mun fara fram 24. júní. Honum er ætlað að bæta metið sem Range Rover Sport jeppi á og ná með því metinu meðal jeppa. Metið stendur í 12 mínútum og 35,61 sekúndu og til þess að bæta það met verður Millen að halda meira en 96 km meðalhraða upp þessa 12,42 kílómetra leið sem inniheldur 156 miskrappar beygjur. 

Bentley Bentayga bíllinn ætti að hafa aflið sem til þarf, en hann er með W12 vél sem er 600 hestöfl og kemur þessum 2,5 tonna bíl í hundraðið á 4,1 sekúndu og er með 301 km hámarkshraða. Rhys Millen er nú þegar búinn að heimsækja höfuðstöðvar og verksmiðju Bentley í Crewe og komast að því að Bentayga jeppinn er í grunngerð einkar hæfur bíll, en í eintakinu sem hann mun aka upp fjallið verður búið að bæta í veltibúri, keppnissætum, nýju pústkerfi frá Akrapovic og slökkvibúnaði, en að öðru leiti er bíllinn eins og venjuleg framleiðslugerð hans.