Ekkert lát virðist vera á óeirðunum í Belfast á Norður-Írlandi en stöðugar óeirðir hafa verið þar í landi í nærri tvær vikur, frá því að páskarnir hófust. Írski forsætisráðherrann Micheál Martin hefur varað við endurkomu ofbeldis í Norður-Írlandi og hvetur leiðtoga til að tryggja að slíkt gerist ekki.
23 ár frá Belfast-samningnum
Dagurinn í dag markaði 23 ár frá því að skrifað var undir Belfast-samninginn, sem einnig er kenndur við föstudaginn langa, sem kom í kjölfar togstreitu milli kaþólikka og mótmælenda þar í landi.
Að sögn Martin er helsti ávinningurinn af samningnum sá að núverandi kynslóð hafi ekki þurft að upplifa ofbeldið sem var viðvarandi fyrir samninginn.
Eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu kom aftur upp mikil ólga þar sem stjórnmálaflokkar mótmælenda og kaþólikka takast nú á.
Sambandssinnar og þjóðernissinnar takast á
Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa 88 lögreglumenn særst hingað til í óeirðunum sem hafa brotist út víða. Ofbeldið var hvað verst í Tiger‘s Bay í norður Belfast, svæði sambandssinna, og New Lodge, sem er við hlið Tiger‘s Bay og er svæði þjóðernissinna.
Lögregla þurfti að setja upp vegatálma þar í gær svo íbúar gætu ekki ráðist hvorn á annan líkt og þeir réðust á lögreglu en óeirðarseggir köstuðu meðal annars bensínsprengjum, steinum og flugeldum í áttina að lögreglu.
Staðan var svipuð víða, til að mynda í Coleraine, þar sem grímuklæddir einstaklingar komu upp vegatálma og kveiktu síðar í honum.
Tveir karlmenn voru handteknir fyrr í vikunni vegna óeirðanna og var kröfu þeirra um að lausn gegn tryggingu hafnað í dag.
Police pelted with petrol bombs in Belfast riots https://t.co/DdQ3Dw4jn1
— The Independent (@Independent) April 10, 2021