Ekkert lát virðist vera á ó­eirðunum í Belfast á Norður-Ír­landi en stöðugar ó­eirðir hafa verið þar í landi í nærri tvær vikur, frá því að páskarnir hófust. Írski for­sætis­ráð­herrann Micheál Martin hefur varað við endur­komu of­beldis í Norður-Ír­landi og hvetur leið­toga til að tryggja að slíkt gerist ekki.

23 ár frá Belfast-samningnum

Dagurinn í dag markaði 23 ár frá því að skrifað var undir Belfast-samninginn, sem einnig er kenndur við föstu­daginn langa, sem kom í kjöl­far tog­streitu milli kaþólikka og mót­mælenda þar í landi.

Að sögn Martin er helsti á­vinningurinn af samningnum sá að nú­verandi kyn­slóð hafi ekki þurft að upp­lifa of­beldið sem var við­varandi fyrir samninginn.

Eftir að Bretar gengu úr Evrópu­sam­bandinu kom aftur upp mikil ólga þar sem stjórn­mála­flokkar mót­mælenda og kaþólikka takast nú á.

Sambandssinnar og þjóðernissinnar takast á

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa 88 lög­reglu­menn særst hingað til í ó­eirðunum sem hafa brotist út víða. Of­beldið var hvað verst í Tiger‘s Bay í norður Belfast, svæði sam­bands­sinna, og New Lod­ge, sem er við hlið Tiger‘s Bay og er svæði þjóð­ernis­sinna.

Lög­regla þurfti að setja upp vega­tálma þar í gær svo í­búar gætu ekki ráðist hvorn á annan líkt og þeir réðust á lög­reglu en ó­eirðar­seggir köstuðu meðal annars bensín­sprengjum, steinum og flug­eldum í áttina að lög­reglu.

Staðan var svipuð víða, til að mynda í Colera­ine, þar sem grímu­klæddir ein­staklingar komu upp vega­tálma og kveiktu síðar í honum.

Tveir karlmenn voru handteknir fyrr í vikunni vegna óeirðanna og var kröfu þeirra um að lausn gegn tryggingu hafnað í dag.