Rétt fyrir hálf tólf í gærkvöldi var bensínsprengju kastað að kyrrstæðri og mannlausri bifreið í Laugardal. Engan sakaði og gerendur voru á brott þegar lögregla kom á staðinn. Málið er í rannsókn. Alls voru um 70 mál skráði í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17:00-05:00.

Skömmu fyrir hálf tíu var tilkynnt um að aðilar hefðu gengið í skrokk á manni í Grafarvogi. Málið er í rannsókn.

Um fimm í gær var aðili stöðvaður vegna gruns um þjófnað úr verslun. Viðkomandi reyndist einnig hafa lítilræði af fíkniefnum á sér.

Rétt fyrir tíu var tilkynnt um innbrot í geymslur í miðborginni. Málið er í rannsókn.

Rétt eftir hálf níu var ökumaður stöðvaður í Laugardal fyrir að nota farsíma í akstri án þess að vera með handfrjálsan búnað. Við nánari athugun vaknaði grunur um að hann væri einnig undir áhrifum. Ökumanninum var sleppt eftir sýnatöku.

Um hálf sjö var ökumaður stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum.

Rétt fyrir hálf tvö var tilkynnt um bílveltu í Breiðholti. Ökumaðurinn var talinn fastur í bifreiðinni en komst út með smá aðstoð. Engar nánari upplýsingar liggja fyrir.

Tilkynnt var um fjóra aðila í annarlegu ástandi, einn var að öskra úti á götu í Laugardal og var vistaður í fangageymslu þar til rennur af honum. Hinir fengu aðstoð við að komast í skjól.

Rétt fyrir hálf sex var tilkynnt um reyk sem væri að koma úr Hvalfjarðargöngum. Hann reyndist koma frá pústkerfi bilaðrar bifreiðar og engin hætta var á ferð.