Fyrrum páfinn Benedikt XVI brást ekki við sem skyldi í fjórum málum þar sem börn voru misnotuð innan kaþólsku kirkjunnar þegar hann var erkibiskup í Munchen.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn þýskrar lögfræðistofu á kynferðislegri misnotkun gegn börnum innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi.
Benedikt páfi, sem gekk þá undir nafninu Josef Ratzinger, gegndi starfi erkibiskups í Munchen á árunum 1977 til 1982 og hefur hann neitað ásökununum.
Gögn sem stuðst var við í rannsókninni benda hins vegar til þess hann hafi verið viðstaddur fund um brot kirkjunnar manna og hafi ekki beitt sér í málunum þrátt fyrir að prestarnir sem um ræðir hafi haldið áfram að vinna í kirkjustarfi.
„Tvö af þessum málum varða misnotkun sem framin var í valdatíð hans og var samþykkt af ríkinu. Í báðum málunum héldu gerendurnir áfram að starfa við sálgæslu,“ sagði lögmaðurinn Martin Pusch er hann kynnti niðurstöður rannsóknarinnar.
Vatíkanið meðvitað um ásakanirnar
Benedikt sagði af sér sem páfi árið 2013 vegna þreytu í starfi og varð þar með fyrsti páfinn í meira en 600 ár til að hætta í embætti. Síðan þá hefur hann að mestu lifað rólegu lífi í Vatíkaninu en hann er 94 ára gamall.
Fyrrum páfinn er sagður hafa unnið með rannsóknarteyminu og svarað spurningum þeirra ítarlega en hann neitaði þó að hafa haft nokkurra vitneskju um misnotkunina og að hafa sýnt aðgerðaleysi í málunum.
Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu kemur fram að það muni skoða ásakanirnar sem koma fram í skýrslunni strax og hún verður gerð opinber.
„Er við margítrekum skömmina og eftirsjána vegna misnotkunar presta á ólögráða einstaklingum þá lætur páfadómur í ljós stuðning sinn til allra fórnarlamba og staðfestir vegferð sína til að vernda ólögráða einstaklinga og ábyrgist örugg rými fyrir þau,“ segir í yfirlýsingu Vatíkansins.
Eldri rannsókn á kynferðislegri misnotkun í Þýskalandi leiddi í ljós að rúmlega 3600 manns sem höfðu verið misnotuð af kirkjunnar mönnum á árunum 1946 til 2014. Mörg fórnarlambanna voru á barnsaldri og höfðu starfað sem altarisdrengir.
Nýja rannsóknin tók sérstaklega til Munchen og Freising og hefur hún leitt í ljós minnst 497 fórnarlömb misnotkunar á árunum 1945 til 2019.