Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, bendir Brynjari Níelssyni á það í færslu á Twitter-síðu sinni í dag að hún eigi að baki langan og glæstan feril í knattspyrnu. Tilefni færslunnar er viðtal við Brynjar sem birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað var um sætaskipan á þingi, en dregið var um sæti í gær og situr Rósa Björk öðrum megin við Brynjar, en Willum Þór hinum megin.

„Við Willum Þór getum rætt knattspyrnu enda einhverjir gáfuðustu menn um knattspyrnu um allt Ísland, að eigin mati,“ segir Brynjar Níelsson um Willum Þór Þórsson, en sagði að hann hefði líklega lítið að tala um við Rósu. Þau eigi ekki neitt sameiginlegt, eða mjög lítið svo vitað sé.

Nennir ekki að tala við rembur

„BN ætlar bara að tala um fótbolta v Willum Þór. Veit greinilega ekki að ég æfði fótbolta í mörg ár m Breiðablik, margfaldur Íslandsmeistari og var í U17 landsliðinu. En auðvitað er ekki hægt að tala um fótbolta v kjellingar.. Nenni ekki að tala v rembur..“ segir Rósa í færslu sinni sem hægt er að sjá hér að neðan.