Tilboði belgíska fyrirtækisins Jan De Nul í dýpkun við Sundabakka í Reykjavík hefur verið tekið af stjórn Faxaflóahafna. Að því er kemur fram í fundargerð stjórnarinnar nemur tilboð belgíska fyrirtækisins 24 prósentum af kostnaðaráætlun.

Fjarlægja á um 300 þúsund rúmmetra af efni af sjávarbotni úti fyrir Sundahöfn til að greiða fyrir siglingum stærri skipa. Í lok júlí í sumar komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri líklegt að losun dýpkunarefnis í hafið muni hafa neikvæð áhrif á vistkerfi sjávar. Samkvæmt rannsókn á botndýralífi í Kollafirði, þar sem losa eigi efnið sem fært verður til, sé fjölbreytni lífríkisins lítil.

„Tegundirnar sem fundust eru útbreiddar allt í kringum landið og verndargildi þeirra talið lítið. Ekki er útilokað að dýpkunarframkvæmdir við Sundabakka geti haft áhrif á göngu laxa í og úr Elliðaám. Líkur á því eru þó ekki miklar þar sem fjarlægð að ósum Elliðaáa er talsverð og fyrir liggur að framkvæmdir verða ekki á göngutíma seiða,“ bendir Skipulagsstofnun á. Verkefnið þurfi því ekki að fara í umhverfismat.

Dýpkað verður á hafnarsvæði á Viðeyjarsundi, utan Vatnagarða og nýs Sundabakka. Í umfjöllun Skipulagsstofnunar segir að áður hafi verið dýpkað á stærstum hluta svæðisins og náttúrulegum botni verið raskað. Verkið felist að langmestu leyti í því að fjarlægja laust efni en að búast megi við klöpp í jaðri dýpkunarsvæðisins.

„Að öllum líkindum verður notuð grafa á pramma til dýpkunar en þó gæti verið að dæluskip yrði notað sem losar efni í einum klumpi eins og um pramma væri að ræða, en það veldur minni gruggmyndun en þegar efni er dælt úr skipi. Klöppin verður fleyguð eða sprengd,“ segir Skipulagsstofnun.

Dýpkunarefnið verður losað í aflagða efnisnámu á hafsbotni suðaustur af Engey en þar hefur verið losað efni síðan árið 2005. „Alls hafa þegar verið haugsettir rúmlega 1.000.000 rúmmetrar af dýpkunarefni í þessa námu sem hætt var að nýta til efnistöku fyrir meira en 20 árum,“ segir áfram í umsögn Skipulagsstofnunar.

Þá segir að þótt dýpkunarvæðið skarist ekki við svæði þar sem Björgun ehf. er með efnistöku úr námu við Engey bendi Orkustofnun á að ætlunin sé að varpa dýpkunarefni í hafið innan svæðis þar sem stofnunin hafi í júní síðastliðnum veitt Björgun leyfi til efnistöku til næstu tíu ára. „Orkustofnun fallist ekki á að Faxaflóahafnir varpi dýpkunarefni á umrædd svæði enda takmarki það möguleika Björgunar til lögmætrar nýtingar efnis,“ undirstrikar Skipulagsstofnun.

Áætlað er að verkið hefjist fyrir nóvemberlok og að því ljúki á tólf dögum.