Stjórnvöld í Belgíu og Ítalíu eru búin að banna notkun á malaríulyfinu hydroxychloroquine við meðferð COVID-19 og er búið að stöðva rannsóknir með virkni lyfsins vegna aukaverkana.

Með því feta stjórnvöld í Belgíu og Ítalíu í fótspor stjórnvalda í Frakklandi sem tilkynntu í gær að búið væri að banna notkun á hydroxychloroquine hjá sjúklingum sem eru smitaðir af COVID-19.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (e. WHO) ákvað fyrr í vikunni að hætta rannsóknum á virkni lyfsins gegn COVID-19 af öryggisástæðum. Þá hætti Oxford-háskólinn rannsókn sinni á lyfinu sem var fjármögnuð að stóru leyti af Bill Gates.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur mælt með lyfinu og sagðist á dögunum sjálfur vera að taka lyfið til að koma í veg fyrir að smitast af COVID-19.

Samkvæmt nýjum reglum lyfjaeftirlitsins í Frakklandi og Ítalíu er aðeins heimilt að nota lyfið í rannsóknum héðan í frá en Belgar vöruðu við því að lyfið væri notað við rannsóknir.

Á dögunum kom skýrsla í breska lyfjatímaritinu The Lancet þar sem kom fram að einstaklingar sem hefðu tekið inn hydroxychloroquine væru að kvarta undan óreglulegum hjartslætti og að einstaklingar sem tækju lyfið væru líklegri til að deyja.