Endurtalningu atkvæða í Georgíufylki lauk í fyrradag og staðfestu þau úrslit sem allir helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna höfðu þegar tilkynnt að Joe Biden væri sigurvegari fylkisins og hlyti alla 16 kjörmennina. Brad Raffensberger, innanríkisráðherra Georgíu, tilkynnti í kjölfarið að úrslitin yrðu vottuð.

Donald Trump, fráfarandi forseti, heldur áfram baráttu sinni til að reyna að stöðva staðfestingu forsetakosninganna. Eftir því sem málsóknum hans er vísað frá einni af annarri fjarlægist sá möguleiki með hverjum deginum. Á fimmtudag var þremur málsóknum í lykilfylkjum vísað frá vegna ónógra sönnunargagna.

Þar sem dómstólaleiðin virðist ókleifur múr hefur Trump í vikunni beint sjónum sínum að vottun fylkjanna, sem detta inn ein af annarri. Vottun hefur hingað til aðeins verið formlegt ferli, en Trump hefur reynt að hafa áhrif á það og snúa embættismönnum til að fara gegn kosningaúrslitunum og senda eigin kjörmenn til að kjósa forseta.

Dramatík í Michigan í vikunni

Á þriðjudag varð uppi fótur og fit þegar tveir fulltrúar Repúblikana í Michigan neituðu að votta atkvæði frá Waynesýslu, það er Detroitborg, þar sem Biden vann yfirburðasigur. Hefði það gjörbreytt stöðunni í Michigan ef stærsta borgin og höfuðvígi Demókrata hefði verið svipt atkvæðum sínum. Fulltrúarnir drógu synjun sína til baka eftir tvo klukkutíma eftir hörð viðbrögð. Var hátterni þeirra talið bæði ólýðræðislegt og uppfullt af kynþáttafordómum. Eftir þessa uppákomu hafa fulltrúarnir tveir fundað með Trump og hafa reynt að draga staðfestingu sína til baka.

Af þeim baráttufylkjum sem Trump er að reyna að snúa, er Georgía fyrst til að votta úrslitin. Áður hafa þrettán önnur fylki vottað, þar á meðal Flórída, Virginía og Massachusetts. Allt til 11. desember votta fylkin sínar niðurstöður eitt af öðru og kjörmennirnir kjósa forseta þann 14. desember.

Múrinn hækkar með hverri vottun

Eftir því sem baráttufylkin votta sín úrslit verður múrinn sífellt hærri fyrir Trump og teymi hans af lögfræðingum. Mánudagurinn næstkomandi, 23. nóvember, er lykildagsetning því þá votta bæði Pennsylvanía og Michigan sín úrslit. Ef þeir kjörmenn eru lagðir saman við örugga kjörmenn Demókrata er Biden þá kominn yfir 270 kjörmanna múrinn. Barátta gegn vottun í Wisconsin, Arizóna og Nevada verður því tilgangslaus.

Þó að úrslit kosninganna séu flestum ljós nema Trump og hans dyggasta stuðningsfólki, hefur stjórnarskiptateymi Joes Biden ekki fengið það fjármagn og þann aðgang að upplýsingum sem til þarf til að stjórnarskiptin gangi smurt fyrir sig og hin nýja stjórn verði betur í stakk búin til að takast á við faraldurinn strax í janúar.

Þetta veltur á stoðþjónustu Bandaríkjanna, GSA, en Emily Murphy forstjóri hennar hefur haft sig hæga, að eigin sögn „þar til úrslitin verða ljós.“ Vottun í Georgíu, Michigan og Pennsylvaníu gæti fengið hana til að skipta um skoðun og afhenda fjármagnið strax á mánudag.