Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram stjórnarfrumvarp á Alþingi til að skapa lagaramma um beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum.

Markmið frumvarpsins er að tryggja betur réttindi sjúklinga með betri skilgreiningu á nauðung, skilyrðum fyrir beitingu nauðungar auk reglna sem þarf að fylgja í kjölfar þvingana, valdbeitinga og annarra inngripa í sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Gerð verður krafa á skráningarskyldu, kæruheimildir og rétt til að bera mál undir dómstóla áður en einstaklingar eru beittir nauðung.

Verði frumvarpið að lögum eiga heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra að forðast að beita sjúklinga hvers kyns nauðung og ekki grípa til slíkra ráðstafana nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga. Þetta á einnig við um fjarvöktun, þ.e. rafrænnar vöktunar með myndavél eða hljóðnema.

Þvinguð lyfjagjöf kölluð meðferð undir núgildandi reglum

Ljóst er að fullnægjandi lagaheimildir eru ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á geðheilbrigðisstofnunum. Þetta kom fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis um eftirlitsheimsókn hans á lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi, réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérhæfða endurhæfingargeðdeild, í lok október 2018. Sú skýrsla var höfð til hliðsjónar við gerð frumvarpsins.

Eftir að skýrsla umboðsmanns Alþingis kom út setti Landspítalinn sérstakar verklagsreglur um aðgerðir sem geta falið í sér inngrip, þvinganir eða aðra valdbeitingu gagnvart sjúklingum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að inngripin hafa oft verið réttlætt með vísan til meðferðarsjónarmiða.

„Með hliðsjón af þessum reglum grípa starfsmenn spítalans til úrræða gagnvart sjúklingum á borð við einangrun, herbergisdvöl, virkt eftirlit (gát), líkamlega þvingun eða þvingaða lyfjagjöf (lyfjafjötra). Í daglegu tali falla þessar ráðstafanir undir hugtakið þvingun í starfsemi Landspítalans og að mati yfirstjórnar spítalans er nauðsynlegt að geta gripið til þeirra þegar önnur úrræði duga ekki til. Að auki ganga ýmsar reglur á lokuðum deildum geðsviðs Landspítala nærri persónufrelsi sjúklinga, þ.e. rétti þeirra til að vera frjálsir ferða sinna, ráða sjálfir sínum dvalarstað og verða ekki sviptir frelsi nema samkvæmt skýrri lagaheimild. Þá kunna ýmis ákvæði í reglum spítalans að ganga nærri friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Einnig kemur fyrir að munir sjúklinga séu haldlagðir, sem kann að brjóta gegn friðhelgi eignaréttar.“

Umboðsmaður Alþingis telur að ekki sé hægt að fella þessar athafnir undir meðferð.

Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar hans á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þurfa sérstaka undanþágu til að beita nauðung

Lagt er til að meginreglan um bann við beitingu nauðungar verði færð í lög um réttindi sjúklinga. Einnig verði lögfestar skýrar undanþáguheimildir til að víkja frá banni við beitingu nauðungar og fjarvöktunar í tvenns konar tilvikum.

Yfirlækni eða vakthafandi sérfræðilækni verður heimilt að víkja frá banni við beitingu nauðungar og fjarvöktun í sérstökum einstaklingsbundnum tilfellum, enda sé tilgangurinn að koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni, eða að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklings.

Í neyðartilvikum verður heimilt að beita nauðung til að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum.

Kveðið er á um rétt sjúklinga til að kæra ákvörðun um beitingu nauðungar til sérfræðiteymis eða kæra beitingu nauðungar án þess að ákvörðun liggi þar að baki.

Skipað verður sérfræðiteymi um beitingu nauðungar. Það skal vera til ráðgjafar og leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstofnanir og taka við skýrslum um beitingu nauðungar og fjarvöktun.

Kveðið er á um skráningu allra tilvika sem fela í sér nauðung eða fjarvöktun.