Bandaríkin munu koma til með að beita Rússa refsiaðgerðum vegna aðgerða bæði ríkisstjórnarinnar og leyniþjónustusamtaka sem beinast að „fullveldi og hagsmunum Bandaríkjanna,“ en Joe Biden Bandaríkjaforseti skrifaði í dag undir forsetatilskipun þess efnis. Með tilskipuninni reyna Bandaríkin að koma í veg fyrir skaðlegar aðgerðir Rússa.

Þjóðaröryggisráðgjafi Bidens, Jake Sullivan, sagði í samtali við CNN að markmiðið með aðgerðunum væri að bregðast alvarlega við án þess að stigmagna ástandið. Þá sagði hann Biden telja að að þeir Vladimír Pútín Rússlandsforseti, þyrftu að funda um samband landanna.

„Ríkisstjórn Bidens hefur verið skýr með það að Bandaríkin vilja eiga í stöðugu og fyrirsjáanlegu sambandi við Rússland. Aftur á móti höfum við einnig verið skýr með það, bæði opinberlega og í einrúmi, að við munum vernda þjóðarhaginn og beita sektum vegna aðgerða rússneskra yfirvalda sem er ætlað að skaða okkur,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins um málið.

Tíu vísað úr landi

Meðal þeirra aðgerða Rússa sem vísað er til í tilkynningunni eru hvers kyns tilraunir til þess að hafa áhrif á frjálsar og lýðræðislegar kosningar, hugsanlegir netglæpir sem beinast að Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra, spillingu og tilraunir til að hafa áhrif á ríkisstjórnir annarra landa, og tilraunir til að grafa undir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þegar bannað bandarískum fjármálastofnunum að taka þátt í viðskiptum á rússneskum mörkuðum, auk þess sem sex rússnesk tæknifyrirtæki hafa verið útnefnd fyrir að aðstoða rússneskar leyniþjónustustofnanir og verður vel fylgst með þeim í framhaldinu.

Ráðuneytið hefur enn fremur beitt 32 aðila eða stofnanir refsiaðgerðum fyrir að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum síðastliðinn í nóvember, hvort sem það var með afskiptum eða að dreifa röngum upplýsingum. Þá hefur tíu rússneskum ríkiserindrekum verið vísað úr landi.