Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan þjófnað og brot á lögum um ávana og fíkniefni. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 26. mars síðastliðinn og birtur um helgina en maðurinn játaði á sig brotin í fyrirtöku þann 17. mars síðastliðinn.

Brotin áttu sér stað yfir þriggja mánaða tímabil, frá ágúst til nóvember 2020. Lögreglustjórinn höfðaði mál gegn á hendur ákærða í febrúar en dómskjölum kemur fram að maðurinn eigi að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1992, einkum vegna þjófnaða og umferðarlagabrota.

Maðurinn var nýlega laus úr fangelsi eftir 60 daga vist fyrir þjófnað og fjársvik. Hann var leystur úr haldi þann 3. júlí og ekki leið á löngu þar til hann framdi sitt fyrsta brot með því að ræna fartölvu úr verslun Tölvulistans í Reykjanesbæ, þann 20. ágúst. Hófst þá brotahrina sem stóð yfir í þrjá mánuði, í gegnum mánuðina ágúst, október og nóvember, en maðurinn játaði á sig eftirfarandi brot:

  • Maðurinn gengur inn í verslun Tölvulistans í Reykjanesbæ og tekur þar ófrjálsri hendi Asus fartölvu að verðmæti 99.995 króna.
  • Átta dögum eftir þjófnaðinn í Reykjanesbæ, ákveður maðurinn að skreppa til Reykjavíkur og kemur við í Elko og rænir þar tölvuskjá að verðmæti 37.995 króna.
  • Þann 6. október, brýst hann inn í bíl við bílastæði IKEA og stelur tösku sem í eru greiðslukort, vegabréf, bókhaldsgögn, snyrtivörur og 220 þúsund í reiðfé. Í dómskjölum kemur fram að maðurinn hafði með sér „hraðaviðvörun“ úr bílnum en það gæti verið tæki sem nemur hvort verið sé að mæla hraðann.
  • Degi síðar, þann 7. október, notar hann greiðslukortið sem hann hafði stolið úr bílnum, til að greiða fyrir vöru í verslun Iceland í Hafnarfirði og bílaþvott í þvottastöðinni Löður í Kópavogi.
  • Þann 8. október framkvæmir lögreglan húsleit á heimili mannsins og leggur þar hald á tæp sjö grömm af marijúana.
  • Fimmtudaginn 5. nóvember fer hann inn í verslun Bauhaus og stelur slaglykli og svokölluðu „kombo-kit“ að verðmæti 239.990 króna.
  • Sama dag fer hann inn í verslun Byko í Kópavogi og stelur snagabretti og Borsch hitamyndavél að verðmæti 192.790 króna.
  • Þann 10 nóvember mætir hann aftur á bílaþvottastöð, í þetta sinn Bílabað í Reykjanesbæ og spennir þar upp ryksugu með þeim afleiðingum að hún eyðileggst.
  • Tæpum tveimur vikum síðar, þann 23. nóvember, fer maðurinn inn í verslun Pennans Eymundssonar í Reykjanesbæ og tekur þar ófrjálsri hendi HP ljósmyndaprentara að verðmæti 29.999 króna og gengur út án þess að greiða fyrir.

Maðurinn var dæmdur í tíu mánaða fangelsi og gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns. Hér fyrir neðan má sjá kort af ferðum mannsins.