Félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra halda opinn kynningarfund í dag klukkan 11:00 til 13:00 á hótel Hilton Nordica þar sem kynnt verða drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um heildarendurskoðun þjónustu við eldra fólk.

Í tilkynningu segir að fundurinn sé öllum opinn en hægt verður að fylgjast með honum í beinni hér að neðan þegar hann hefst. Þar kemur einnig fram að heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar.

„Markmiðið er að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu og að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi.“

Verkefnastjórn sem skipuð var síðastliðið sumar hefur unnið að mótun aðgerðaáætlunarinnar í samvinnu við haghafa. Stefnt er að því að birta drögin að aðgerðaáætluninni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í desember og leggja áætlunina síðan fram sem tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2023.

Dagskrá kynningarfundarins 5. desember 2022:

11:00-11:15 Ávörp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra

11:15-11:35 Kynning á drögum að aðgerðaáætlun um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk

11:35-11:50 Umræður

11:50-12:35 Stutt erindi um samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu:

- Hvað er samþætt félags- og heilbrigðisþjónusta? Margrét Guðnadóttir, doktorsnemi í heimahjúkrun við Háskóla Íslands og verkefnastjóri SELMU-heimaþjónusta

- Hverju skilar slík þjónusta fyrir íbúa? Guðbjörg Th. Einarsdóttir, mastersnemi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og verkefnastjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar

- Hvað segja tölurnar? Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats velferðarsvið Reykjavíkurborgar

12:35-12:50 Umræður

12:50-13:00 Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, flytur lokaorð