NASA og SpaceX stefna nú að því að senda tvo geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er um að ræða fyrsta mannaða geimskotið í Bandaríkjunum frá árinu 2011.

Það eru geimfararnir Robert Behnken og Douglas Hurley sem eru þess heiðurs njótandi að fá að fara um borð í Crew Dragon geimfarið sem verður skotið upp af Falcon 9 eldflaug SpaceX.

Stefnt er að flugtaki klukkan 20:33 að íslenskum tíma og má fylgjast með þessum sögulega viðburði í beinni útsendingu hér fyrir neðan.

Uppfært klukkan 20:20: Geimskotinu hefur verið frestað vegna veðurs. Stefnt er að því að gera aðra tilraun næsta laugardag.

Er þetta fyrsta mannaða geimferð fyrirtækisins sem stofnað var árið 2002 af Suður-Afríska milljarðamæringnum Elon Musk.

Behnken og Hurley eru báðir reyndir geimfarar og tóku þátt í Geimskutluáætluninni en Hurley var meðal geimfaranna sem flugu í síðasta leiðangri áætlunarinnar.

NASA og SpaceX hafa unnið saman á þessu ári við Crew Dragon Demo-2 á­ætlunina.

Falcon 9 eldflaugin fræga mun skjóta Crew Dragon geimfarinu á loft upp og mun flaugin svo lenda aftur á prammanum sem ber nafnið Of course I still love you, sem flýtur í Atlantshafinu.

Rússar hafa staðið fyrir flestum mönnuðum geims­kotum síðastliðinn áratug en áform Bandaríkjamanna næstu ár eru heldur betur metnaðarfull.

Stefnt er á mannaðar geimferðir til tunglsins og þaðan til Mars. Hægt er að lesa nánar um það í fréttaskýringu Fréttablaðsins um seinni geimöldina.