Svandís Svavarsdóttir mælir nú fyrir frumvarpi um heimildir til að grípa til hertari aðgerða á landamærum. Hún hóf framsöguræðu sína á því að þakka Alþingi fyrir „samstöðuna sem ríkt hefur um aðgerðir vegna COVID-19,“ eins og hún orðaði það í ræðu sinni.

„Það er ekki sjálfgefið í samfélagi eins og okkar sem er opið og öflugt, þar sem lýðræðishefð er mikil og umræða er óheft að það ríki svo mikil eindragni í samfélaginu.“ sagði Svandís í ræðu sinni og bætti við:

„Sem betur fer hefur það einkennt umræðunna bæði innan þings og utan að það hefur að jafnaði heyrt til undantekninga að veiran sé gerð að pólitísku bitbeini. Ég held það megi segja að það hafi verið reglan fyrstu 10 til 12 mánuði faraldursins en hefur borið meira á því að undanförnu og þá fyrst um áramótin þegar rætt var um bólusetningar þegar fólk hafði áhyggjur af kaupum á bóluefni og svo núna þegar við erum að ræða ráðstafanir vegna smita um landamærin.“

Fylgjast má með umræðunni á þingi hér að neðan.

Bráðabrigðaákvæði við sóttvarnalög og útlendingalög

Í frumvarpinu eru tvö ný ákvæði bæði til bráðabrigða með gildistíma frá 22. apríl til og með 31. júní. Um er að ræða heimildir til ráðherra á grundvelli annars vegar sóttvarnalaga og hins vegar í útlendingalaga.

Skyldudvöl í sóttvarnahúsi

Í 1. gr. er gert ráð fyrir heimild fyrir heilbrigðisráðherra til skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

Sóttvarnalækni verði heimilt að veita undanþágu frá sóttvarnahúsvist geti viðkomandi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Umsókn um undanþágu skuli hafa borist sóttvarnalækni tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins en við mat á því hvort hana skuli veita beri að líta til nýgengi smita á viðkomandi svæði eða landi sem ferðamaður kemur frá eða hefur dvalið í.

Miðað er við að ráðherra birti lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði að undangenginni tillögu sóttvarnalæknis. Listinn skuli uppfærður á tveggja vikna fresti.

Bann við komu til landsins

Hins vegar er í frumvarpinu kveðið á um breytingu á útlendingalögum og lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt, á umræddu tímabili, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að kveða á um það í reglugerð, að útlendingum sem koma frá eða dvalið hafa á hááhættusvæði sé óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði laga þessara og reglugerðar um för yfir landamæri. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um undanþágur frá banni við komu til landsins, meðal annars vegna búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða. Ákvæðið gildi einnig um útlendinga sem koma frá svæðum sem ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um.

Í báðum tilvikum er um bráðabrigðaákvæði að ræða sem gilda eiga til 30. júní.