Sjálfskiptum bílum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum. Árið 2014 var rétt rúmlega helmingur allra innfluttra bíla sjálfskiptur og hafði hlutfallið verið svipað árin þar á undan. Í dag er mikill meirihluti innfluttra bíla sjálfskiptur, 83,5 prósent árið 2021.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra til Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.

Árið 2021 voru fluttir inn 15.797 bílar, 13.187 af þeim sjálfskiptir, 1.181 beinskiptur og 1.429 óskráðir.

Þá voru aðeins 2.242 bílar, eða 14,2 prósent, hreinir bensínbílar og hefur hlutfallið aldrei verið lægra. Árið 2020 var hlutfall hreinna bensínbíla 22 prósent og 39 prósent 2019.

Vildi Andrés vita hvort ráðherra teldi reglur um takmörkun ökuskírteinis þeirra sem taka bílpróf á sjálfskiptan bíl í samræmi við þróun bílaflotans og markmið stjórnvalda. En samkvæmt Evrópureglugerð er hægt að taka próf á sjálfskiptan bíl og má viðkomandi þá ekki keyra beinskiptan bíl. Í svarinu sagði Sigurður að þetta fyrirkomulag væri ekki í andstöðu við markmið stjórnvalda í orkuskiptum eða í ósamræmi við þróun bílaflotans.