Fréttablaðið hefur undir höndum bréfið sem aðgerðahópurinn sendi á tónlistarfólkið.

Þar titlar hópurinn sig sem „A group of No Borders activists, bands and artists from Reykjavik Iceland.“

Bréfið er á ensku en sé því lauslega snarað á íslensku segir: „Við skrifum þér í dag varðandi mótmælaaðgerð í tengslum við komandi Iceland Airwaves hátíð. Icelandair, aðal styrktaraðili hátíðarinnar leyfir íslenskum yfirvöldum að nota sæti um borð í flugvélum félagsins til að uppfylla brottvísanir á flóttafólki úr landinu.“

Segja brottvísanir kerfisbundið ofbeldi

Í bréfinu segir enn fremur: „Við höfum séð fjölda vina okkar senda úr landi síðustu ár og við upplifum brottvísanir sem kerfisbundið ofbeldi, holdgervingu kerfislægs kynþáttahaturs sem veldur langvarandi líkamlegum og andlegum skaða. Fólk er sent inn í lífsógnandi aðstæður þar sem ofbeldi, útlendingahatur, lífsbarátta, hætta, fátækt og örmögnun bíður þeirra. Í samstarfi við íslensk stjórnvöld hefur Icelandair leikið lykihlutverk í þessum verknaði.“

Í bréfinu segir að ef Icelandair myndi hætta þátttöku í brottvísunum myndu stjórnvöld og yfirvöld upplifa örðugleika varðandi að uppfylla núverandi stefnu í brottvísunarmálum.

Þá er fullyrt á sama stað að önnur mikilsmetandi alþjóðleg flugfélög hafi tekið opinbera afstöðu í slíkum málum og ákveðið að hætta þátttöku í flugi með einstaklinga sem vísað er úr landi. Icelandair hafi tækifæri til að setja tóninn fyrir mikilvæga breytingu.

Leynileg áætlun

Í bréfinu er útlistuð leynileg áætlun sem beinist gegn hátíðinni. „Við viljum fá alla listamenn með okkur í verkfall gegn hátíðinni og krefjast þess að Icelandair hætti að taka þátt í þessum brottvísunum, og hvetja þau til að standa með mannréttindum. Við viljum fyrst senda bréf á hátíðina og flugfélagið og síðan sem seinni skref myndum við birta verkfallsyfirlýsingu í opinu bréfi nokkrum vikum fyrir hátíðina, þar sem fram kæmi að viðkomandi listamenn hefðu ákveðið að sniðganga hátíðina undir þessum kringumstæðum. Verkfallinu yrði ekki aflétt fyrr en Icelandair hættu að taka þátt í þessum brottvísunum.“

Í bréfinu segir að hátíðin sjálf sé ekki í brennidepli heldur flugfélagið. „Við viljum sjá hátíðina gerast og öll böndin og listamennina spila, en við ætlumst til þess að lykilstyrktaraðili hátíðarinnar standi með gildum sem við trúum að bæði aðstandendur hátíðarinnar og listamennirnir deili.“

Næst er fullyrt að fjöldi listamanna sem ætluðu að stíga á stokk hafi þegar staðfest þátttöku í mótmælunum og í framhaldi er viðtakanda boðið að ganga til liðs við þann meinta hóp.

Bjóða nafnleysi sem valkost

„Við gerum okkur grein fyrir því að ýmsar breytir geta gert þessa ákvörðun erfiða fyrir þig, sér í lagi ef þú ert í hljómsveit sem kemur erlendis frá. Ef svo er þá gerum við þetta auðveldara fyrir þig: Við upphugsuðum að fá fleiri listamenn til að taka þátt í þessu nafnlaust, bæði til að vernda hljómsveitirnar í erfiðri stöðu en einnig til að tryggja að hátíðin geti bókað aðrar hljómsveitir í staðinn.“

Undirritaðir segjast trúa því að á þessum tímum sé ekki nóg að standa í þögninni heldur þurfi að nota vettvanginn með virkum hætti og viðra áhyggjurnar, sýna samstöðu og hvetja til breytinga í nafni jafnréttis, femínísks og réttláts samfélags sem tryggir öllum grundvallarmannréttindi. Þá segjast þau fagna öllum spurningum, fyrirspurnum og hugmyndum sem viðtakandi kann að hafa varðandi aðgerðirnar.

Að lokum er viðtakandi beðinn að fara leynt með efni skeytisins.

Ekki náðist í ritara bréfsins sem gefur upp nafn og símanúmer í lok skjalsins, en símanúmerið er skráð í Ástralíu.