Umræða um þriðja orkupakka Evrópusambandsins fer fram á Alþingi klukkan 10:30 í dag og verður að venju streymt í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Um er að ræða fram­hald síðari umræðu um þriðja orkupakk­ann í sérstöku síðsumarsþingi, sem er hluti af núverandi 149. þingi en ekki 150. þingi sem hefst í haust. Sjáðu umræðurnar í beinni hér fyrir neðan.

Fá mál á Alþingi hafa vakið jafn mikla athygli og verið eins mikið til umræðu og þriðji orkupakkinn svokallaði. Umræðan er sú lengsta í sögu Alþingis; lengri en deilurnar um Icesave-samningana árið 2010. Sú umræða stóð í 135 klukkustundir og níu mínútur.

Stuðningsmenn þriðja orkupakkans segja ekkert að óttast, í honum felist engin skuldbinding um að leggja sæstreng frá meginlandi Evrópu til Íslands. Andstæðingar þriðja orkupakkans segja að ef hann verði samþykktur þá greiði það leiðina fyrir þá sem vilji leggja hingað sæstreng. Orkupakkinn lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef samkomulagið við Miðflokkinn heldur þá verður kosið um þriðja orkupakkann á þingi, mánudaginn 2. september, er þá málinu lokið.

Ísland er eina landið sem á eftir að samþykkja hann af ríkjum EES og hefur ráðherraráð ESB þegar samþykkt allar reglugerðir fjórða orkupakkans.